Steingervingar sjávardýra finnast ekki fyrr en á plíósen þegar blágrýtismynduninni var að ljúka. Sjá jarðsögutöflu. Þá flæddi sjór yfir Tjörnes sem skilur að Skjálfandaflóa og Axarfjörð og myndaði setlögin sem kennd eru við nesið. Þar má raunar finna samfellda myndun jarðlaga sem spannar gloppulítið tímann frá plíósen til síðari hluta pleistósen.


Suðaustanlands hefur fundist elsta jökulberg sem þekkt er hér á landi um 5 milljón ára gamalt eða frá svipuðum tíma og elsti hluti Tjörneslaganna. Þetta jökulberg bendir til þess að loftslag hafi verið farið að kólna svo mjög að jöklar hafi náð að myndast á hæstu fjöllum.


Tjörneslögunum er skipt í þrjár deildir eftir einkennissteingervingum skelja sem í þeim finnast: Gáruskeljalög (TapesVenerupis), tígulskeljalög (Maktra) og krókskeljalög (Serripes).


Hin eiginlegu Tjörneslög eru um 500 m þykk setlög með um 5 - 10° halla til NV. Þau má rekja með sjávarbökkunum frá læknum Köldukvísl, þar sem þau leggjast ofan á hraunlög blágrýtismyndunar, norður til Höskuldsvíkur. Tjörneslögin eru aðallega mynduð úr sjávarseti og í þeim er urmull steingerðra skelja og kuðunga en víða má sjá ár- og vatnaset og auk þess surtarbrandslög. Mismunandi uppruni setsins bendir til þess að á myndunartímanum hafi svæðið ýmist verið neðan- eða ofansjávar.


Gáruskeljalögin [Tapes] eru elst og liggja þau á tertíeru basalti. Þau draga nafn sitt af steingervingum gáruskeljategunda sem eru einkennissteingervingar þessa setlags og voru skeljarnar áður taldar til ættkvíslarinnar Tapes en nú til ættkvíslarinnar Venerupis. Þær lifa við vesturströnd Evrópu í mun hlýrri sjó en nú er að finna við Norðurland og bendir það til þess að sjórinn á Tjörnessvæðinu hafi verið a.m.k 5 - 6°C hærri en nú þegar gáruskeljalögin voru að myndast. Auk gáruskeljanna eru þarna ýmsar aðrar tegundir skelja og kuðunga. Einnig finnast surtarbrandslög sem benda til þess að landsvæðið hafi nokkrum sinnum risið úr sæ.


Tígulskeljalögin [Mactra] [Spisula] draga nafn sitt af samnefndum tegundum skelja sem nú eru útdauðar. Aðrar skeldýrategundir sem þarna lifðu finnast nú aðeins miklu sunnar eins og t.d. hnúfskel sem nú lifir nyrst í Norðursjó. Þarna eru einnig nokkuð þykk surtarbrandslög sem sýna fram á breytilega sjávarstöðu. Rannsóknir frjókorna benda til að á þessu svæði hafi vaxið blandaður skógur barr- og lauftrjáa. Af barrtrjám má nefna furu, greni, þin og lerki en af lauftrjám eik, beyki, platanvið, hesli og kristþyrni. Heimkynni kristþyrnis eru í Suður-Evrópu og benda því gróðurleifarnar til mun mildara loftslags en nú ríkir. Meðalhiti kaldasta mánaðarins hefur varla verið undir 0°C og steingervingar sjávardýranna benda til sjávarhita sem hefur a.m.k. verið 5°C hærri en nú.

Ísöld hefst (fyrir um 2,7 Má) 


Krókskeljalögin eru kennd við samnefnda skel [Serripes grönlandicus]. Þau eru nær eingöngu úr sjávarseti en surtarbrandur finnst þó efst í þeim. Krókskeljalögin sýna, svo ekki verður um villst, að sædýrasamfélagið hefur breyst frá því sem það var í gáruskelja- og tígulskeljalögunum. Kulvísar skeljategundir, sem aðeins lifa í hlýjum sjó, eru horfnar en í stað þeirra eru komnar skeljar sem lifa við svipaðan sjávarhita og nú er eins og hafkóngur og hallloka auk krókskeljarinnar. Krókskeljalögin byrja líklega að myndast fyrir um 3,2 milljónum ára, skömmu áður en elstu jökulbergslög á Jökuldal, í Akrafjalli og við Giljá mynduðust. Þessi jökulbergslög eru 3,3 milljón ára gömul og voru talin marka upphaf ísaldar. Nú er miðað við setlög á sjávarbotni sem gefa til kynna að ísöld hafi hafist fyrir 2,7 Má.


Af um 100 tegundum skelja og kuðunga sem finnast í krókskeljalögunum eru um 25 upprunnar í Kyrrahafi en af því má álykta að Beringssundið hafi opnast á þessum tíma. Krókskel, hafkóngur og hallloka, sem upprunnar eru í Kyrrahafi, gátu því leitað nýrra heimkynna í Norður-Íshafi og Atlantshafi.


Sjá um upphaf ísaldar á Íslandi.