Sjávarstöðubreytingar

Breytingar á sjávarstöðu miðað við land stafa yfirleitt af mismunandi vatnsmagni í höfunum eða lóðréttum hreyfingum jarðskorpunnar. Jöklar heimskautanna, einkum á kuldatímabilum, binda mikið vatn sem veldur því að vatnsborð hafanna lækkar og strandlínan að sama skapi.


Jarðskorpan sígur undan þungu fargi stórra jökla og mest þar sem jökullinn er þykkastur. Þegar jöklar bráðna skyndilega hækkar sjávarborðið jafnharðan og sjór gengur á land. Að vísu rís landið við að losna undan fargi jökulsins en mun hægar. Einnig hafa innri öflin og jarðhnik áhrif á hæð jarðskorpu. Sjávarstöðubreytingar eru því háðar fleiri en einni breytistærð og því oft á tíðum flókið fyrirbæri. Sjávarstöðubreytingar vegna mismunandi sjávarmagns kallast eustasy en flotjafnvægi, isostasy, er það kallað þegar jarðskorpan leitar jafnvægis á seigu undirlaginu.


Breytingar á sjávarstöðu, þ.e. hæð sjávar miðað við land hafa mikil áhrif á mótun landslags við strendur. Við finnum því forn fjörumörk hátt yfir sjó og langt inni í landi. Þar má finna malarhjalla sem oftast eru gamlar óseyrar eða marbakka og stórgrýtta malarkamba með lábörðum hnullungum. Víða er brimið að sverfa nýja brimstalla þar sem eldri brimstallar hafa risið eins og Melabakkar í Melasveit. Í Reykjavík má sjá forn fjörumörk í 43 m hæð y.s. Einnig má sjá að sjór gengur á land eins og á Seltjarnarnesi þar sem fjörumór hefur sigið í sæ.


Við Stokkseyri og Eyrarbakka virðist ströndin hafa sigið síðustu 8000 árin.



Sjá INDEXL → landmótun → hafið.



Sjá um breytingar á sjávarstöðu hér á landi á síðjökultíma og í lok ísaldar.