Hreyfingar sjávar og sjávarrof

Hreyfingar hafsins eru einkum tvenns konar, bylgjuhreyfingar og straumar sem ýmist eru hafstraumar vegna vinda, mismunandi eðlisþyngdar vatnsins eða sjávarfalla.


Bylgjuhreyfing verður til þegar vindur blæs yfir sjó. Hún einkennist af bylgjulengd og bylgjuhæð. Bylgjulengdin (L) er lengdin milli tveggja öldukamba og bylgjuhæðin (H) er hæðarmunur milli öldudals og öldukambs. Þegar vindar blása um hafflöt flyst hluti af orku þeirra yfir í vatnið. Annars vegar dregur vindurinn yfirborð sjávar með sér og veldur hafstraumum og hins vegar ýfir hann yfirborðið og kemur af stað bylgjuhreyfingu á yfirborðinu.


Svo sýnist sem hafaldan velti sjónum með sér á leið sinni yfir hafflötinn en sú er ekki raunin sem best sést á hlut sem flýtur á sjónum. Hann lyftist og fellur á víxl, svolítið fram á við en svo aftur til baka allt eftir því hvoru megin hann er á öldunni. Haföldur eru yfirborðsbylgjur þar sem vatnsagnirnar hreyfast í hringi í lóðréttum fleti. Hreyfing agnanna er mest við yfirborðið en hún deyr út á dýpi sem samsvarar hálfri bylgjulengdinni (L/2).


Þrennt ræður stærð bylgju á haffleti: vindhraði, stöðugleiki vindsins og sú vegalengd sem vindurinn hefur til að athafna sig á haffletinum (særými). Þess vegna geta háar bylgjur aðeins orðið til á langri leið á rúmsjó og í stöðugum vindi sem staðið hefur klukkustundum saman. |T| Þegar stórar bylgjur myndast verður einnig fjöldinn allur af smærri bylgjum til.


Stuttar öldur tapa orku sinni fyrr en langar öldur og auk þess gildir um haföldur að hraði þeirra vex með öldulengd. Öldurnar geta borist langar leiðir út fyrir stormasvæðin þangað sem vindsins er löngu hætt að gæta. Þar ber mest á löngum undiröldum því að þær fara hraðast og hinar smærri eru að mestu dánar út. Undiralda getur því ýmist verið fyrirboði eða eftirstöðvar storms.


Þegar öldur berast af hafi með jöfnum hraða (sömu tíðni) og nálgast strendur kenna þær grunns þegar dýpið er álíka og hálf bylgjulengdin (L/2). Við það breytist hringlaga ferill vatnsagnanna í öldunni í sporöskjulaga feril og hraði agnanna vex. Mótstaða við botninn hægir á sjálfri öldunni og breytir um leið lögun hennar þannig að hún rís og bylgjulengdin styttist jafnframt. Oft tvöfaldast ölduhæðin á grynningum. Aldan er ávallt brattari landmegin vegna þess að þar er hún á grynnra vatni en djúpmegin. Þegar ölduhæðin er orðin meiri en svo að aldan standi undir sjálfri sér steypist hún fram yfir sig og brotnar — brim. Það gerist yfirleitt á dýpi sem jafnast á við eina til eina og hálfa ölduhæð. Alda sem er 6 m há ætti því að brotna á 9 m dýpi.





Sjá INDEXL → landmótun → hafið.