Rofmáttur vindsins

Vindurinn ber agnir með sér á líkan hátt og rennandi vatn enda berst hann yfirleitt áfram með iðustraumum og er vindhraðinn því minnstur við jörðina. Méla og leir þyrlast upp í nokkurra kílómetra hæð en stærstu kornunum feykir vindurinn sem jarðskriði þar sem þau hoppa og skoppa og hrinda öðrum kornum af stað um leið og þau lenda á þeim.


Hindranir, sem vindurinn lendir á við yfirborð jarðar, mynda þunnt lag af kyrru lofti og skiptir þá ekki máli hvort sú hindrun er grýtt yfirborð, gróðurþekja eða skjólbelti. Yfirleitt verður kyrra lagið, sem myndast, um 1/30 af hæð hindrunarinnar og óháð vindhraða. Mélu- og leirkorn sem liggja þétt saman á milli sandkorna á leirum liggja því oft í skjóli og fjúka þá fyrst er sandkornin byrja að hoppa og skoppa undan vindinum. Umferð gangandi og ökutækja raskar oft þessu jafnvægi og veldur því að ryk þyrlast upp í hægum andvara.


Stærstu sandkornin ná yfirleitt ekki mikilli hæð nema í mjög snörpum vindhviðum en smærri sandkorn og léttar vikuragnir ná nokkurra metra hæð eins og oft sést á sandblásnum vegaskiltum, staurum og bifreiðum sem lenda í sandbyl.


Vindurinn getur borið ótrúlegt magn af mylsnu með sér, jafnvel svo tonnum skiptir í hverjum km3 lofts. Líkt og í rennandi vatni er rofkraftur vinds mjög háður vindhraða en yfirleitt má segja að sand skafi auðveldlega í stinningskalda og allhvössum vindi. Það magn, sem skefur, vex nánast í 5. veldi miðað við vindhraða. Sandmagnið þrítugfaldast rúmlega við tvöföldun vindhraða. Heiftarlegir sandstormar [Ar.: هبوب , haboob, habúb] verða oft í eyðimerkursvæðum.


Þau korn sem fjúka með yfirborði jarðar skefur upp í öldur rétt eins og í rennandi vatni nema hvað stærð þeirra er breytilegri allt frá smáum gárum og sköflum upp í stórar öldur sem geta orðið allt að nokkur hundruð metra háar. Á Alashan-sléttunni í Kína hafa mælst 500 m háar sandöldur.


Sandöldurnar eru af ýmsum gerðum sem fara einkum eftir vindstyrk og ríkjandi vindáttum, sandmagni og gróðurþekju. Hér á landi má víða sjá lágar sandöldur og melgrashólar eru áberandi þar sem foksandur safnast um melgresið. Vindborið set er oftast lagskipt og þá víxllaga með aðgreindum kornastærðum. Það er einkum að finna í nágrenni eyðimarka, aura jökulfljóta, sendinna stranda og eldfjalla.





Sjá INDEXL → landmótun → vindurinn.