Jöklabúskapur

Jöklar eru næmir fyrir loftslagsbreytingum og eru þeir því sífellt að breytast vegna ójafnvægis milli snjóalaga sem hlaðast á safnsvæði (snjófyrningasvæði) jökulsins og leysinga sem verða á leysingasvæði hans en á milli þeirra er svokölluð jafnvægislína. Hún er ekki eins greinileg og snælínan eða hjarnmörkin og finnst yfirleitt einungis með mælingum.


Jöklabúskapur er sagður jákvæður þegar snjófyrningar eru meiri en leysingin sem fram fer og jökullinn stækkar en neikvæður ef snjófyrningarnar eru minni. Þó loftslag kólni snögglega og mun meira fyrnist af snjó en nær að leysast yfir sumarið sýnir jökullinn mikla tregðu og breytingarnar koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir langan tíma. Þetta er þó nokkuð breytilegt eftir gerðum jöklanna og eru sumir fljótari að taka við sér en aðrir. Íslenskir jöklar hafa t.d. rýrnað mjög á þessari öld og er því sagt að jöklabúskapur þeirra hafi verið neikvæður.


Safn- og leysingasvæðin sjást mjög glöggt á gervihnattamyndum sem teknar eru síðsumars af Vatnajökli. Snjófyrningasvæðið á hájöklinum ofan hjarnmarkanna er þá þakið mjallhvítum snjó frá síðasta vetri en neðan hjarnmarkanna glittir í dökkan ís á leysingasvæðinu. Þetta er einkum greinilegt á skriðjöklunum en þeir eru afrennsli hájökulsins og ná víða langt niður fyrir hjarnmörk.


Rýrnun gaddjökla gerist einkum við sólbráð á yfirborði, rennsli í sjó fram og við svokallaða þurrgufun en þá gufar ís upp án þess að breytast í vatn fyrst. Jafnvægislína á jökli liggur á milli safnsvæðis og leysingasvæðis. Ofan jafnvægislínunnar verður massaaukning en neðan hennar massarýrnun miðað við heilt ár. Hjarnmörk á jökli sjást nokkuð greinilega á jöklinum að hausti en jafnvægislínan, sem liggur nokkru neðar, finnst einungis með mælingum.


Rýrnun jökla veldur því að skriðjöklar þynnast og hopa. Myndast þá oft jökullón við jökulsporðinn, svokölluð sporðlón, eins og Jökulsárlón, sem er yfir 100 metra djúpt við jökulröndina. Þar brotna ísjakar úr jökulröndinni og fljóta um lónið. ◊. Sagt er að jökullinn kelfi þótt réttilega merki það að gera kúna kálffulla. Þegar slíkt gerist á heimskautasvæðunum, þar sem daljöklar ganga í sjó fram og mynda flæðarjökla, fljóta stórir borgarísjakar á haf út.



Sjá um afkomu jökla.