Þegar við virðum landslag fyrir okkur sjáum við vegsummerki rennandi vatns víðast hvar, enda eru ár og lækir iðnust útrænu aflanna í mótun landsins. Talið er að á ári hverju beri öll fljót jarðar um 18 · 109 tonn af bergmylsnu til sjávar auk 4 · 109 tonna af uppleystum efnum sem borist hafa í vatnið við efnaveðrun.
Eins og aðrir vökvar flæðir vatn ýmist lagskipt eða með iðustreymi (iðuköstum). ◊ Þegar um lagskipt flæði er að ræða renna efnisagnirnar samsíða með straumnum, ekki ósvipað og þegar vaxgufa stígur upp af kerti sem slökkt er á í kyrru lofti. Neðst er streymið lagskipt og efnisagnirnar stíga samsíða og lóðrétt upp en þegar reykurinn nær vissri hæð þyrlast hann til og rýkur burt með iðustreymi.
Straumhraðinn ræður mestu um hvort vatnið fellur lagskipt eða með iðustreymi. Aðeins grunnt vatn sem streymir mjög hægt og á sléttum botni getur streymt fram með lagskiptu rennsli. Flest vatnsföll streyma því með iðuköstum.
Þegar iðustreymi flytur bergmylsnu niður farveg gerist það einkum á tvennan hátt. Smæstu agnirnar ná að svífa í vökvanum sem grugg en stærri korn hoppa og skoppa eða skríða eftir botninum og kallast það botnskrið. ◊
Rofmáttur vatnsfalls er einkum háður straumhraða þess. Straumhraði fljóts segir til um hversu stór bergmylsnukorn það getur flutt fram við vissar vatnafræðilegar aðstæður. Það lætur nærri að þvermál korns, sem straumurinn getur hrifið með sér, stækki í sjötta veldi þegar straumhraðinn tvöfaldast í sama fljótinu. Af þessu sést að rofmátturinn eykst gífurlega með auknum straumhraða og talið er líklegt að stærstu gljúfur landsins, eins og Jökulsárgljúfur, ◊ hafi að miklum hluta myndast í flóðum.
Straum- hraði |
Þvermál steinvölu | ||
1 | 16 | = | 1 cm |
2 | 26 | = | 64 " |
3 | 36 | = | 729 " |