Innri gerð jarðar

Vegna snúnings jarðar um möndul sinn flest hún lítið eitt út og þess vegna er radíus hennar 6378 km við miðbaug en ekki nema 6357 km við pólana. Tindar hæstu fjalla eru í 8 km hæð yfir yfirborði sjávar en mesta hafdýpi er um 11 km. Mishæðir á yfirborði jarðarinnar eru því litlar miðað við jarðkúluna alla eða álíka og þykkt eplahýðis miðað við eplið sjálft. Massi jarðar hefur verið reiknaður út og er hann um 5,983 · 1024 kg.


Með beinum athugunum getum við aðeins kannað gufuhvolf jarðar, höfin og ystu lög jarðskorpunnar. Vitneskju um innri gerð hennar fáum við hins vegar með óbeinum mælingum því dýpstu borholur eru aðeins um 12 km djúpar. Sú mynd sem menn hafa gert sér af innviðum jarðar byggir þannig einkum á mælingum á jarðskjálftabylgjum og rannsóknum á hegðun þeirra.


Þannig hefur komið í ljós að jörðin er lagskipt að innri gerð. Annars vegar skiptist hún eftir efnasamsetningu í þrjú lög, kjarna, möttul og jarðskorpu og hins vegar eftir efnislegum eiginleikum í fimm lög. Þar er tvískiptur kjarni í miðju, úr föstu efni innst og fljótandi efni yst. Utan kjarnans tekur miðhvolfið (mesosfera) við en ofan þess er deighvolfið (lághraðalag, asthenosfera) og loks efst og yst er berghvolfið (stinnhvolf, lithosfera).


Efsti hluti berghvolfsins skiptist í unga og eðlisþunga úthafsskorpu og gamla og eðlislétta meginlandsskorpu.



Breytileg gildi eðlismassa jarðar: |T|, línurit