Dyngjur [schildvulcane, shield volcano] (hraunskjöldur, skjaldfjall) myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunnt hraunbráðið meðan á gosinu stendur. Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.
Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir ◊ úr helluhraunslögum og eru hlíðarnar yfirleitt með 6° til 8° halla. Gígbarmarnir rísa ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði ◊ ◊ ◊. og Kjalhrauni en þar hefur hrauntjörn gígsins storknað jafnhátt gígbörmunum. Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum. Gígketill Skjaldbreiðs ◊ ◊ er um 500 m í þvermál en í Trölladyngju ◊ ◊ er röskur 1 km milli veggja ketilsins. 9 km SSA af trölladyngju er lítil falleg dyngja – Urðarháls ◊ ◊ ◊
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju. Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Þekktastar eru risaeldfjöllin Mauna Kea (Hvítafjall) og Mauna Loa (Langafjall) en þessar dyngjur eru jafnframt mestu eldfjöll jarðar. Þessar dyngjur rísa meir en 4000 m yfir sjávarmál og frá hafsbotni af 6000 m dýpi svo raunveruleg hæð þeirra eru um 10.000 m. Mauna Loa er svo mikið fjall að rúmmáli, reiknað frá sjávarbotni, að Ísland allt ofansjávar myndi rúmast innan í því. Dyngjur Hawaii-eyja eru að því leyti ólíkar þeim íslensku að þær hafa hlaðist upp í fjölmörgum gosum en íslensku dyngjurnar eru myndaðar í einu gosi eða einni röð af goshrinum.
Stærstu hraun frá íslenskum dyngjum eru hraun úr Trölladyngju ◊. sem rann norður Bárðardal, rúml. 100 km langt og 465 km2 að flatarmáli. Þetta hraun liggur undir elsta ljósa öskulagi Heklu og er því eldra en 7000 ár. |THekla_SiO2| Einnig rann stórt dyngjuhraun frá Ketildyngju austur af Bláfjalli við Mývatn fyrir um 3800 árum. Ein kvísl þessa hrauns hefur runnið yfir mikinn hluta Mývatnssveitar. Syðsti hluti þessa hrauns í Mývatnssveit nefnist Grænavatnsbruni. Þetta hraun rann einnig norður Laxárgljúfur og norður Aðaldal að Fljótsheiðarodda u.þ.b. 80 km. Ketildyngjuhraunið myndar fyrirstöðu Mývatns ásamt hrauni frá Þrengslaborgum sem rann yfir það fyrir um 2000 árum.
Til baka í hraungos á þurru landi.