nornahár, hraunlýjur [pelés hair] eru langir örmjóir glerþræðir sem myndast hafa við storknun basískrar kviku. Þau myndast einkum úr gasríkri og mjög þunnfljótandi basískri kviku. Þegar kvikan streymir upp og nálgast gígopið losna uppleystar lofttegundir úr kvikunni og mynda loftbólur sem valda mikilli útþenslu og hraðaaukningu kvikunnar. Við þessar aðstæður rís kvikusúla upp í loftið eins og strókur. Þegar loftbólurnar springa myndast slettur sem teygjast í langa þræði, hraunlýjur. Á endum háranna hanga stundum dropalaga perlur sem kallast nornatár. Á erlendum málum heita þessi hár Pelé-hár eftir gyðju eldsins í trú frumbyggja á eynni Hawaii.


Þvermál nornahára í Kröflugosinu í janúar 1981 var að meðaltali 0,003 mm sem er margfalt mjórra en þvermál mannshárs af skolhærðum karlmanni, 0,04 mm.1


Nornahár geta verið álíka varasöm og glerþræðirnir í einangrunarmottum úr glerull, steinull.


Sjá nornatár.



Til baka í gjósku.







Heimildir:   1 Helgi Torfason 1984: „Nornahár III. Nornahár frá Kröflugosinu í janúar 1981“ Náttúrufræðingurinn 53 (3-4), bls. 145-147, 1984