Mestu umskiptin í lífríkinu á landi á krít voru þegar blómplönturnar komu fram á sjónarsviðið. Nú eru um 200.000 tegundir blómplantna þekktar og þ.a.m. margar grastegundir, illgresi, villiblóm og lauftré. Aftur á móti finnast aðeins um 550 nútímategundir af berfrævingum þó svo að sumir t.d. fura, þinur og greni séu víða áberandi í landslaginu. Velgengni blómplantna er því einhver mest heillandi kaflinn í sögu lífsins. ◊
Hugtakið blómplanta getur verið villandi því blóm eru ekki sjáanleg hjá öllum blómplöntum, en þær hafa hins vegar allar þau líffæri til tímgunar sem finna má í blómi blómplantna. Þetta nýmæli hjá blómplöntum við tímgun og það sem í grundvallaratriðum greinir þær frá berfrævingum er fræva sem hylur fræið. Þetta eggleg er í raun þróað laufblað gróbæru plöntunnar.
Í byrjun þessarar aldar voru margir steingervingar frá síðkrít flokkaðir með ættkvíslum núlifandi blómplantna. Síðar hefur komið í ljós að samsvörun milli laufblaða plantna frá krít og núlifandi plantna er aðeins í útliti því allar utan fáeinar tegundir frá krít teljast til útdauðra tegunda. Á sama hátt eiga margar núlifandi tegundir ekki ættir sínar að rekja eins langt aftur og talið var. Af u.þ.b. 500 núlifandi ættum blómplantna finnast aðeins steingervingar 50 þeirra í setlögum frá síðkrít. Sumar þessara ætta koma kunnuglega fyrir sjónir eins og hlynur [Acer], platanviður [Platanus], kristþyrnir [Ilex], pálmatré, eik, valhnot og tré af birkiætt.
Skógar síðkrítar hefðu komið þeim sem lítt þekkja til í grasafræði fremur kunnuglega fyrir sjónir en öðru máli hefði gegnt um skóglaus svæði sem vantaði grös en þau einkenna mýrar, gresjur og savanna nú.
Fyrstu stig þróunar hjá blómplöntum má sjá á steingervingum í setlögum í Maryland í Bandaríkjunum. Í setinu sem spannar aðeins 10 milljón ár á miðkrít eykst fjölbreytni í gerð bæði laufblaða og frjókorna. Fyrstu laufblöðin eru fábreytt að lögun, heilrennd með æðum sem mynda óreglulegt mynstur. Síðar verður gerð laufblaða flóknari, tennt og með flókinni skiptingu. Elstu frjókornin er einnig einföld að gerð og aðeins með einni spírunarrifu en síðar verður fjölbreytnin meiri og spírunarrifurnar verða yfirleitt þrjár. Við það verður frjóvgun öruggari og óháð því hvernig frjókornið snýr á fræninu þegar það lendir þar.
Þróun blómplantna var steingervingafræðingum lengi mikil ráðgáta því að svo virtist sem þróun dulfrævinga hefði gerst í einni svipan miðað við jarðsögulegan mælikvarða. Þeir álitu því að blómplöntur hefðu gengið gegnum langa þróun og leituðu því steingervinga frá upphafi miðlífsaldar þessu til staðfestingar en án árangurs. Steingervingar sýna að þessi þróun var að vísu hröð en ekki eins hröð og álitið var. ◊
Ástæðan fyrir því að dulfrævingar breiddust út á kostnað berfrævinga á síðkrít er augljós. Eitt af því sem dulfrævingar hafa fram yfir berfrævinga er tvöföld frjóvgun [double fertilization]. Fyrri frjóvgunin (einlitna [haploid]) myndar egg í eggleginu og seinni frjóvgunin (tvílitna [diploid]) sem einnig gerist í eggleginu kemur af stað örri myndun forðanæringar fyrir fræið. Eftir frjóvgunina í fræleginu hefst söfnun forðanæringar fræsins og hröð framleiðsla næringarinnar flýtir fyrir frælosuninni. Forðanæring hveitikornsins er gott dæmi um þetta. Berfrævinga skortir þennan hæfileika og tekur það því móðurplöntur þeirra mun lengri tíma að bera fullþroska fræ. Þess vegna hafa berfrævingar oft um 18 mánaða meðgöngutíma eða lengri en blómplöntur aftur á móti vaxa upp af fræi og bera svo sjálfar fræ innan fárra vikna.
Hröð útbreiðsla er einkenni flestra dulfrævinga og svo virðist sem fyrstu tegundirnar hafi þróast við óstöðugar aðstæður líkt og gerist á áreyrum og flóðasvæðum.
Annar mikilvægur þáttur í tímgun blómplantna er hunang í blóminu sem laðar skordýr að því. Skordýrin njóta góðs af næringarríku hunangi blómsins um leið og þau gagnast blómunum við að bera frjókorn frá einu blómi til annars og frjóvga þannig blómin um leið og þau afla sér næringar. Þetta samband skordýrs og blóms er oft mjög sérhæft því að sérhver tegund skordýra nærist á vissri tegund blóma og stuðlar að myndun nýrra tegunda. Þróist blóm með nýja lögun, lit eða ilm hjá plöntutegund getur það e.t.v. dregið til sín aðra tegund skordýra. Plantan með nýja blóminu verður því einangruð hvað tímgun snertir og ný tegund hefur myndast. Almennt séð stuðlar ný tegund skordýra að myndun nýrra tegunda blómplantna og er þetta gagnkvæmt því að nýjar tegundir blómplantna veita nýjum tegundum skordýra tækifæri. Þessi gagnvirkni hefur auðsjáanlega flýtt bæði fyrir myndun nýrra tegunda blómplantna og skordýra og jafnframt flýtt fyrir örri þróun í aðlögun að sérhæfðu lífsferli. Þess vegna hefur þetta samlífi blómplöntu og skordýrs átt mikinn þátt í þeirri velgengni sem bæði hafa notið frá miðkrít.
Sjá frjókorn íslensks birkis. ◊.