Óshólmar (óseyrar) myndast við ármynni þar sem vatnsfall rennur í stöðuvatn eða sjó og straumar t.d. vegna sjávarfalla ná ekki að hreinsa ósinn og skola setinu langt út frá ströndinni. Við ströndina missir vatnsfallið bæði rofmátt sinn og flutningsgetu. Setið fellur til botns og hleðst upp með aflíðandi halla út á meira dýpi. Sífellt bætist við setmyndunina svo að ósinn færist lengra fram og áin hleður jafnóðum víxl- og linsulaga áreyrum ofan á skálaga setið sem áður hafði myndast við aðrar aðstæður. Þarna gildir því lögmál Walthers, sem áður hefur verið minnst á. Óshólmarnir sem líka eru kallaðir landeyjar nefnast delta á erlendu máli vegna þess hve mjög setmyndunin minnir á gríska bókstafinn Δ. Það voru Grikkir sem fyrst notuðu þetta hugtak um óshólma Nílar ◊. enda eru þeir dæmigerðir hvað þessa lögun snertir. Fljótin Mississippi, Ganges Huang He (Hwang Ho, Gulá) og Lena ◊. í austanverðri Síberíu hafa einnig myndað mikla óshólma þar sem þau falla til sjávar.


Stórfljót renna fram óshólma sína í mörgum hvíslum. Þau eru þá orðin lygn og bera aðeins með sér fíngert set, sand, mélu og leir. Grófasta setið fellur til botns í álunum en það fínasta berst alla leið til sjávar þar sem það leggst utan í hlíðar óshólmanna eða jafnvel enn lengra út á hafsbotninn. Fljótin flæða oft yfir bakka sína í álunum þegar flóð eru og fellur þá oft fínt set til botns í mýrum eða fenjum milli álanna ekki ólíkt og gerist í bugðóttu fljóti. Mikill gróður er oft í fenjunum og er kolamyndun því algeng við slíkar umhverfisaðstæður.


Í hlíðum óshólma þar sem ölduróts gætir ekki er setmyndunin að mestu úr mélu og leir. Í slíku seti má oft finna steingerð sjávardýr en auk þess steingerðar gróðurleifar sem fljótið bar með sér en urðu vatnsósa og sukku til botns. Í stuttu máli má segja að slíkar steingerðar gróðurleifar innan um steingerða sjávarfánu rétt neðan fjörumarka séu órækt vitni um setmyndun í óshólmum.


Þegar ferskvatn fljóta mætir söltu og þyngra vatni sjávarins flýtur það ofan á sjónum jafnvel langt út frá ströndinni áður en það blandast. Fínt set sem berst með ferskvatninu nær því að dreifast langt út frá óshólmunum þar sem það fellur til botns og myndar aflíðandi hlíðadrög. Set í óshólmum sem hlaðast upp framan við ós fljóts er því ávallt fínt yst og neðst. Ofan á það hleðst síðan æ grófara skálaga set og loks víxl- og linsulaga efst í sjálfum álunum. Eins og í bugðunum breiðist yngra set hér yfir eldra set sem myndaðist við aðrar umhverfisaðstæður sbr. kenningu Walthers. Þversnið úr setlögum óshólma sýnir því oft setlagaeiningar með leir úr rótum óshólmanna neðst, ofar er méla og efst er víxl- og linsulaga sandur.


Stóra óshólma er einkum að finna við mynni fljóta sem renna í höf þar sem sjávarfalla gætir fremur lítið eins og við óshólma Mississippi, Nílar og Niger.



Sjá vefsíðu Félags um jarðfærði setlaga í Bandaríkjunum [Society for Sedimentary Geology, USA] og síðu félagsins með kvikmyndum um setlagasyrpur.