Í eyðimörkum og lægðum sem liggja í regnvari fjallgarða myndast sérstakar jarðmyndanir. Nú finnast eyðimerkur ekki einungis milli hvarfbauganna þar sem þurrir staðvindar blása í átt að miðbaug heldur einnig fjær miðbaug inni á meginlöndum langt frá sjó og í skjóli hárra fjallgarða.
Í eyðimörkum verður vart til jarðvegur með gróðurmold og það regn sem við og við fellur í eyðimörkum safnast saman í lækjum og giljum og rennur oftast viðstöðulaust út á nálægar sléttur þar sem það gufar upp. Yfir úrkomutímann ber vatnið með sér framburð út á slétturnar. Það myndar aurkeilur ◊ þar sem það rennur í auravötnum fram úr gilskorningum og úti á sléttunum myndast tjarnir eða vötn sem gufa síðan upp yfir þurrkatímann. Sölt sem berast með vatninu út í tjarnirnar mynda svokallað uppgufunarset á þurrksprungnum botninum sem einkennir uppþornaðar leirtjarnir.
Dauðadalurinn í Nevada og Kaliforníu er gott dæmi um slíka myndun. Dalurinn sem liggur í um 86 m hæð undir sjávarmáli er heitasta og þurrasta lægð í Bandaríkjunum þar sem hiti fer jafnvel upp í 50°C og meðalúrkoma er aðeins um 40 mm á ári. ◊ ◊ ◊ ◊
Sandöldur ◊ eru hæðir úr sandi sem hlaðist hafa upp úr vindbornum sandi. Þær er einkum að finna í eyðimörkum þar sem nægan foksand er að hafa og meðfram sendnum ströndum við sjó og við stór stöðuvötn. Þegar vindhraði er nægur fýkur laus sandur í skafla sem smám saman geta orðið að stórum sandöldum. Þær eru mjög mismunandi að gerð og ræður hegðun vindsins mestu þar um. Þar sem vindur blæs stöðugt úr sömu átt eru þær skeifulaga. Sandinn skefur af þeim vindmegin en hann safnast jafnharðan aftur fyrir hlémegin þannig að þær verða víxllaga um leið og þær flytjast um set undan vindinum. Með því að rannsaka skálögun í gömlum steinrunnum sandöldum má geta sér til um ríkjandi vindátt þegar þær mynduðust. ◊ ◊ ◊ ◊
Þegar sandaldan hækkar eykst vindhraðinn á toppnum. Aldan hækkar uns vindhraðinn er orðinn það mikill að öllum sandinum skefur yfir hana. Sandurinn fellur hlémegin og aldan byrjar að skríða áfram. ◊
Flestar sandöldur eru einkum úr kvarskornum sem eru mjög vel flokkaðar eftir stærð. Við sandfok verða kornin ávöl en einnig oft með möttu sandblásnu yfirborði eftir árekstra við önnur korn. Slíkt yfirborð bendir yfirleitt til vindborins sets en hafa verður í huga að það getur hafa borist með vatni á þann stað sem það finnst á. ◊ ◊ ◊