Sigurður Þórarinsson

Sigurður (1912-1983) var afbragðs námsmaður og lauk stúdensprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1931. Um haustið hélt hann til Kaupmannahafnar og hóf nám í jarðfræði við Hafnarháskóla. Ári seinna færði hann sig um set yfir í háskólann í Stokkhólmi sökum gamaldags kennslu við Hafnarháskóla. Sigurður lauk fil. kand-prófi við Stokkhólmsháskóla 1938 í jarðfræði og landafræði með bergfræði og grasafræði sem aukagreinar. Fil.lic-prófi lauk hann ári seinna og fjallaði ritgerð hans um skrið og afrennsli í Hoffellsjökli og jökulstífluð vötn á Íslandi. Sigurður var stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík frá 1945, næstu tvo áratugi. Árið 1947 var Sigurður ráðinn forstöðumaður landa- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafnsins og gegndi því starfi uns hann var settur prófessor í landa- og jarðfræði við Háskóla Íslands árið 1968. Sigurður kom víða við og vann að jöklarannsóknum, rannsóknum á eldfjöllum og jarðskjálftum, en einkum lagði hann áherslu á rannsóknir á öskulögum og sýndi fram á notagildi þeirra á mörgum sviðum innan jarðfræðinnar og fornleifafræðinnar. Má þar nefna möguleikann að tímasetja atburði með hjálp öskulaga, [tephrochronology] gera sér grein fyrir jarðvegsþykknun, hreyfingu jökla og gossögum eldfjalla svo eitthvað sé nefnt.


Öskulög: | H5 | H4 | H3 | Hekla 1104 | Landnámslagið || Öræfajökull 1362 | Askja 1875 | Nokkur af öskulögum Kötlu|


Sigurður starfaði að margvíslegum félagsmálum og náttúruverndarmálum og samdi hann ásamt Ármanni Snævarr fyrstu náttúruverndarlögin sem samþykkt voru á alþingi árið 1956. Eftir Sigurð liggur fjöldi greina og bóka og má þar nefna doktorsritgerð hans Tefrokronologiska studier på Island (1944), Hekluelda (1968) og Vötnin stríð. Saga Skeiðarárhlaupa og Grímsvatnagosa (1974).