Sögulegir jarðskjálftar á Íslandi

Helstu skjálftar á Íslandi frá 1706 til 1990. |T|


Skjálftar 1706: Þnn 28. janúar og 1. apríl fundust harðir kippir en mest kvað að jarðskjálftunum 20. apríl. Þá hrundu bæir á 24 lögbýlum auk húsa á hjáleigum en alls urðu 49 bæir fyrir stórskemmdum. Hús hrundu einnig allvíða í neðanverðum Flóa. Í Arnarbæli hrundi staðarhúsið og kirkjan skekktist mjög og auk þess hrundu 11 hjáleigur þar umhverfis. Í Kaldaðarnesi drápust 13 nautgripir og 12 meiddust. Fólk flúði nakið upp úr rúmum og komst sumstaðar út um þekjuna með smábörn og gamalmenni en ein gömul kona varð undir viðum og beið bana. Húsin veltust sumstaðar um svo undirstöður veggjanna urðu efstar og hey snerust um í heygörðum þannig að botninn sneri upp en torfið niður.


Skjálftar 1732: Þnn 7. september varð landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum að nær 40 bæir spilltust þar og í Eystrihreppi. Fólk lá í tjöldum því jörð skalf nærri í hálfan mánuð.


Skjálftar 1734:. Þnn 31. mars varð mjög mikill jarðskjálfti og hrundu bæir í Flóa og víðar. Í Árnessýslu hrundu 30 bæir alls en 60 eða 70 býli spilltust. 7 eða 8 manns dóu undir húsabrotum.


Skjálftarnir 1784 voru tveir, 14. og 16. ágúst og er stærð þess fyrri talin hafa verið M = 7,1 - 7,5 og því að öllum líkindum stærsti skjálfti sem komið hefur síðan land byggðist. Hann er talinn hafa átt upptök sín SA af Vörðufelli nánar tiltekið um 2 km austur af Hlemmiskeiði á Skeiðum. Hann olli mestu tjóni á Skeiðum, Landi, í Efri-Holtum í Biskupstungum og ofarlega í Grímsnesi. Seinni skjálftinn átti upptök sín um 7 km SA af Selfossi og olli mestu tjóni í Flóa, Ölfusi og neðarlega í Grímsnesi. Þrír létu lífið í þessum skjálfta og um 400 bæi í Árnes- og Rangárvallasýslum skemmdust mikið og þar af eyðilögðust 100 nær algjörlega. Flest hús á biskupsstólnum að Skálholti féllu eða skemmdust verulega. Kirkjuna sjálfa sakaði lítið enda var hún gerð úr timbri. Skjálftarnir urðu til þess að Hannes biskup fluttist af staðnum og voru biskupstóllinn og Skálholtsskóli fluttir til Reykjavíkur. Samkvæmt skýrslu Hannesar lögðu jarðskjálftarnir 1874 400 bæi í Árnes- og Rangárvallasýslum meira og minna í rúst og þar af 100 nær algjörlega.


Skjálftinn 1789 átti líklega upptök sín vestast í Ölfusi og skalf jörð frá Selvogi og norður á Þingvelli. Að suðvestan grynnkaði Þingvallavatn en norðan vatns seig spildan á milli Almannagjár og Hrafnagjár um 60 cm með þeim afleiðingum að Þingvöllur varð votlendari en áður var og urðu þessar jarðhræringar til þess að Alþingi var flutt frá Þingvöllum til Reykjavíkur.


Árið 1896 urðu miklir skjálftar á Suðurlandi og var þeim ítarlega lýst af Þorvaldi Thoroddsen 1899.


26. ágúst: Rétt fyrir kl. 10 um kvöldið reið fyrsti kippurinn yfir. Suðurland skalf allt en langmest á Rangárvöllum, Landi, Upp-Holtum og Gnúpverjahreppi. Stærð skjálftans hefur verið áætluð um og yfir 7. Jarðrask varð mikið og Skarðsfjall á Landi klofnaði allt og sprakk. Jarðvegur losnaði víða frá berginu og seig niður hlíðarnar. Stærstu sprungurnar náðu yfir þvera sveitina frá Ytri-Rangá um Lækjarbotna og Flagbjarnarholt norður að Þjórsá um 15 km vegalengd.


27. ágúst: Um morguninn kom nýr kippur. Hann var svo harður á Landi að fólk sem var úti við gat ekki ráðið hreyfingum sínum en steyptist niður og veltist um jörðina. Þessi kippur var svo harður í Vestmannaeyjum að grjót féll á menn við fýlatekju og lést einn maður af áverkum sínum.


5. september kl. 23: Mikill skjálfti skók land á Skeiðum, í Holtum og Flóa. Upptök fyrsta kippsins virðast hafa verið nálægt Selfossi. Í Flóa féll fjöldi bæja til grunna en hinir skemmdust flestir meira eða minna. Í þessum skjálfta skemmdist gamla Ölfusárárbrúin töluvert, akkerishleinarnar brustu, hliðarstrengir losnuðu og brúarstöpull laskaðist þannig að lokað var fyrir umferð annarra en gangandi. Um mínútu seinna varð annar skjálfti austar á skjálftabeltinu nálægt Þjórsárbrú og löskuðust brúarstöplarnir nokkuð. Á Skeiðum opnuðust stórar sprungur og gekk sú stærsta framhjá Kálfhóli, upp Skeið og mitt Vörðufell. Bæirnir Krókur, Urriðafoss, Þjótandi, Skálmholt, Útverk, Hestur og Gíslastaðir austan í Hestfjalli urðu verst úti í þessum skjálfta.


6. september kl. 02 kom harður kippur og féllu 24 bæir í Ölfusi til grunna.


Í skjálftunum 1896 féll meira en helmingur húsa á 75 bæjum í Árnessýslu og 86 bæjum í Rangárvallasýslu og á álíka fjölda bæja í báðum sýslum féll fjórðungur til helmingur húsa. Af þeim 1287 býlum sem þá voru í sýslunum varð tjón á 971 býlum. Þrátt fyrir allt þetta tjón létust aðeins 4 í skjálftunum 1896.


Árið 1912 varð skjálfti austast á skjálftabeltinu og var hann mældur um 7 stig á Richterkvarða. Upptökin voru suðvestan undir Heklu á milli Selsunds og Næfurholts. Níu bæir hrundu til grunna og eitt barn beið bana. Þessi skjálfti er sá fyrsti sem var mældur og út frá tjóni í þessum skjálfta á torfbæjum — húsakosti þessa og fyrri tíma — hafa eldri skjálftar verið metnir.


Sjá Suðurlandsskjálfta.



Heimildir: Sigurður Þórarinsson 1974: „Jarðskjálfti“. Í (Sigurður Líndal, ritstj.) Saga Íslands I. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar. Hið íslenzka bókmenntafélag, Sögufélagið, Reykjavík 1974. 84-88.
Sveinbjörn Björnsson 1976: „Jarðskjálftar á Íslandi“, Náttúrufræðingurinn 45 110 - 133.
Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarson 1981: „Jarðskjálftar“ í Náttúra Íslands, Almenna Bókafélagið 2. útg. 121 - 155.
Þorvaldur Thoroddsen 1933: Lýsing Íslands 2. bindi, Ísafold, 194 -204