Snjór breytist í jökulís

Snjóflygsur sem falla í skæðadrífu og mynda lausamjöll eru úr sexhyrndum (hexagonal) greinóttum kristöllum sem vaxa á leið sinni til jarðar. Slíkt nýsnævi er mjög létt í sér, aðeins um 1/100 til 1/10 af eðlismassa vatns. Snjókristallar í nýsnævi breytast hratt og viðkvæmar greinar þeirra bráðna og rýrna en vatnið gufar upp og þéttist að mestum hluta við kjarna kristallsins. Þannig breytast viðkvæmir og greinóttir snjókristallarnir í kúlulaga korn sem vaxa saman og mynda tiltölulega þéttan grófkorna snjó.


Gerist þetta ofan hjarnmarka, sem falla saman við snælínu á jöklum, nær snjóinn ekki að leysa yfir sumarið og hann fyrnist. Við þetta umkristallast snjórinn og hann verður að hjarni sem er millistig snævar og jökulíss. Eðlismassi þess er þá á bilinu 0,4 - 0,85 g/cm3. Eftir því sem hjarn fergist þrýstast kornin saman og holrými milli þeirra minnkar og hverfur.


Snjónum má líkja við setberg er smám saman umkristallast og myndbreytist þegar nýir kristallar vaxa á kostnað þeirra smærri. Yfirleitt hefur allt hjarn breyst í jökulís á 25 - 30 m dýpi og tekur það vanalega nokkur ár. Eðlismassi íssins er þá orðinn um 0,9 g/cm3 enda holrými horfið að undanskildum einstaka loftbólum sem verða innlyksa í kristalnum. Jökulís sem skríður undan eigin þunga er því að mestu úr endurkristölluðum og myndbreyttum snjó og hjarni. Með djúpborunum í jökulísinn á Suðurskautslandinu og Grænlandi má finna lofttegundir sem lokuðust inni í ísnum fyrir 30.000 árum og geta þær e.t.v. gefið til kynna hvernig samsetning gufuhvolfsins var þá og hvaða breytingar hafa orðið.


Snjór breytist í ís: