Vatnshverir, laugar og goshverir

Uppsprettum jarðhitavatns á lághitasvæðum hefur frá gamalli tíð verið skipt í vatnshveri og laugar, en goshverir eru þekktir á meðal beggja. Vatnshverirnir eru með heitu og oft sjóðandi vatni. Ýmsar lofttegundir í vatninu, svonefnt hveraloft, flýta gjarna fyrir suðunni. Stærsti vatnshverinn og jafnframt vatnsmesti hver jarðar er Deildartunguhver í Borgarfirði með um 180 l/sek. af 100°C heitu vatni. Laugar eru útbreiddar um allt land nema á Austfjörðum. Vatn þeirra er volgt og snautt af hveralofti nema þar sem um kolsýrulaugar er að ræða og koldíoxíð rýkur úr vatninu.



Goshverir finnast bæði á lág- og háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há. Suða vatnsins flytur varma upp eftir vatnssúlunni í uppstreymisgöngum goshveranna þannig að gasríkt vatnið nær að yfirhitna. Á meðan Geysir í Haukadal ◊. gaus reglulega mældist vatnið um 90°C við yfirborðið en 125 - 126°C á 10 m dýpi sem er vel yfir suðumarki. Á því dýpi er suðumarkið 121°C. Við slíkar aðstæður verður eins konar skyndisuða eða gufusprenging sem spýtir öllu vatni úr 20 m djúpri gosrásinni. Það eru sömu lögmál sem kalla fram gos í gosvirkinu Strók í Öskjuhlíð.


Strokkur:


Geysissvæðið: