Darwinius masillae: er besta eintak steingerðs fremdardýrs (prímata) sem fundist hefur hingað til. ◊. Steingervingurinn hefur að geyma beinagrind og útlínur mjúkra líkamshluta auk fæðuleifa í meltingarvegi. Út frá þessum gögnum má geta sér til um lífshlaup, hreyfigetu og fæðuval dýrsins. Hér á eftir ættu allar rannsóknir á eósen-ólígósen prímötum að njóta góðs af þeim upplýsingum sem staðaleintak Darwinius hefur að geyma. Sú staðreynd að tannkamb og snyrtikló vantar bendir til þess að Darwinius verður ekki einfaldlega flokkaður með lemúrum heldur teljist hann til stærri hóps prímata - Adopoidea og þar getur hann verið fulltrúi fjölbreytileika í þróunarferli haplorhine (þurrgrana) Steingervingurinn er talinn vera af kvendýri og fékk vinnuheitið Ida.


Steingervingur Darwinius masillae fannst í Grube Messel (Messel-gryfju, Messel pit) sem er skammt frá bænum Messel í Hessen ≈ 8 km austur af bænum Darmstadt og ≈ 35 km SA af Frankfurt am Main. Gryfjan er í sprengigíg af ker-gerð [maar] sem þarna myndaðist á eldvirku regnskógasvæði fyrir 47 Má. Olíu-leirsteinn hefur myndast á botni gígvatnsins í súrefnissnauðu umhverfi. Ekki er ólíklegt að við og við hafi eiturgufur streymt til yirborðs vatnsins td. vegna jarðhræringa líkt og í Nyos-vatni í Afríku og drepið skógardýr á bökkum vatnsins. Líkamsleifarnar sem bárust í vatnið sukku til botns og grófust í loftfirrtu setinu án þess að rotna. Við slíkar aðstæður sem þessar myndast gjarnan olíuborinn leirsteinn og séu lög hans klofin í sundur koma steingerðar leifar lífvera oftar en ekki í ljós sem afrit af báðum hliðum þeirra. Þetta verður að gera með aðgát og vegna þess hve leirsteinninn þornar hratt er epoxy eða pólýester kvoðu hellt yfir flötinn og leirsteinninn fjarlægður þegar hún hefur harðnað.


Í Messel-grifjunni fannst einnig vel varðveittur fornjór: Propalaeotherium hassiacum


Olíuborni leirsteinninn var unninn í Messel gryfjunni frá 1885 fram til 1971 þegar vinnslu var hætt. Til stóð að urða sorp í gryfjunni og þess vegna tóku steingervingasafnarar til óspilltra málanna og hirtu það sem þeir komust yfir. Árið 1995 var Grube Messel sett á heimsminjaskrá UNESCO og tveimur árum seinna var því lýst yfir að yfirvöld gerðu ekki tilkall til steingervinga sem fundist hefðu fyrir 1995. Var þetta gert til að fá safnara til að svipta hulunni af þeim munum sem þeir kynnu að hafa undir höndum og höfðu ekki náð að koma í verð.


Saga Darwiniuw masillae steingervingsins er á margan hátt furðuleg en óþekktur steingervingasafnari fann hann 1983. Þegar leirsteinninn var klofinn skaddaðist önnur hliðin (plata-B, vinstri hlið dýrs) verulega og lítur svo út sem glataðir hlutar hafi verið falsaðir. Þessi hluti var seldur 1991 til einkasafns, Wyoming Dinosaur Center í Thermopolis í Wyoming, í Bandríkjunum. Hinn hlutinn (plata-A, hægri hlið dýrs) kom svo ekki í ljós fyrr en Náttúrugripasafn Óslóarháskóla keypti hann á steingervingamarkaði 2007. Þessi hluti er afar vel varðveittur eins og kom fram hér í upphafi - aðeins fremsti hluta visntri fótar vantar og á það við um bæði sýnin.


Steingerfingurinn sem seldur var til Wyoming var lýst og hann greindur til tegundarinnar Godinotia neglectus innan ættarinnar Adapidae. Ekki fer á milli mála að steingervingurinn sem keyptur var til Óslóar 2007 (plata-A, hægri hlið dýrs) er af sama dýrinu og vegna þess hve vel hann er varðveittur hefur hann verið greindur nú til nýrrar tegundar innan Adopoidea þe. ◊. Darwinius masillae. (Darwinius: til heiðurs Darwin á afmælisári hans og masillae: er latnest orðmynd Messel sem kemur fyrir í Codex Lorsch-klaustursins (lýst guðspjallabók) sem rituð var um 800 AD).



Heimildir:   1) Franzen, Jens L., Philip D. Gingerich et al. 2009: Complete Primate Skeleton from the Middle Eocene of Messel in Germany: Morphology and Paleobiology. | PLoS ONE, www.plosone.org; May 2009, Volume 4, Issue 5, e5723.
HTML < http://www.plosone.org/article/info:doi/10.1371/journal.pone.0005723 >

PDF < http://www.plosone.org/article/fetchObjectAttachment.action?uri=info%3Adoi%2F10.1371%2Fjournal.pone.0005723&representation=PDF >

2) < http://www.grube-messel.de/ >
3) < http://www.grube-messel.de/messel-d/lageplan-messel.pdf >