Megineldstöðvar tertíertímabilsins voru líkar að gerð og þær sem við nú þekkjum. Þær voru því á linsulaga sprungusveimum og mynduðu sumar hverjar háar eldkeilur sem gusu blönduðum gosum uns þær rak út fyrir virka gosbeltið. Þá kaffærðust þær loks af flæðigosum frá sprungum eða dyngjum tengdum yngri kerfum eldstöðva innar á gosbeltinu. Sumar megineldstöðvanna gusu kröftugum sprengigosum og þeyttu gjósku yfir landið. Í öflugustu sprengigosunum mynduðust flikrubergslög og sjást sum þeirra í berglagastaflanum. Þekktast þessara flikrubergslaga er Skessulagið sem varð til við gos á tertíer í Breiðdalseldstöðinni. Einna best sést Skessulagið í þversniði af Breiðdalseldstöðinni milli Berufjarðar og Breiðdals. Sjá myndir: Það sést sem ljós rönd í fjöllunum frá Berufirði til Reyðarfjarðar og Fagradals. Samanlagt þekur lagið um 430 km2 lands og þar af liggur sambrædd gjóska yfir 260 km2. Meðalþykkt lagsins er um 15 m og rúmmálið um 4 km3. Það er mun meira en upp kom í mesta þeytigosi Heklu, H3, fyrir 2800 árum. Sjá töflu |THekla|. Breiðdalseldstöðin er á meðal þeirra útkulnuðu megineldstöðva í blágrýtismynduninni sem hvað best hafa verið rannsakaðar og kortlagðar.


Upphleðslan í eldstöðvakerfunum er mest um miðbik megineldstöðvarinnar og þar er einnig mest um ganga og önnur innskot sem oft eru yfir 50% af berginu á móti tæpum 10% utar í sprungusveimnum. Undir megineldstöðvunum var kvikuþró þar sem kvikan náði að þróast og gusu þær því ýmist basalti, íslandíti eða rýólíti svipað og gerist í nútíma megineldstöðvum. Þegar kvikuþróin tæmdist, eins og stundum gerðist, seig fjallið saman við að þakið yfir kvikuþrónni féll niður og sigketill eða askja myndaðist. Kvika, sem storknaði í kvikuþrónni, myndaði djúpbergsinnskot úr gabbrói eða granófýr.