Eldvirkni á tertíer

Eldvirkni á tertíer hefur líklega verið hér með líkum hætti og nú. Á gosbeltinu greindist hún upp í sprungusveima með flestum gerðum eldstöðva. Af hraunlögunum sést að þau runnu ýmist frá gossprungum, dyngjum eða eldkeilum. Langstærstur hluti hraunlagastaflans virðist þó gerður úr hraunum sem urðu til í sprungugosum í gjall- og klepragígaröðum. Eldvörpin sjálf sjást ekki enda hafa gígbarmarnir rofnað niður áður en næsta hraun rann yfir og þakti þá. Aðfærsluæðarnar, gangarnir, sjást aftur á móti vel í brimklifum eða þar sem jöklar og fallvötn hafa sorfið dali og gljúfur í berggrunninn. ◊. Víða er gangafjöldinn mikill og sums staðar mynda þeir allt að 15% bergsins. ◊. Á milli hraunlaganna eru víða þunn rauðleit millilög sem líklega eru leifar jarðvegs og bendir það til þess að langur tími hafi liðið milli gosa og jarðvegur því náð að myndast á yfirborði þeirra áður en næsta hraun rann yfir. Í hamraveggjum má líka sjá tiltölulega þunn hraunlög sem runnið hafa frá nálægum dyngjum. Engin millilög er að finna milli dyngjuhraunlaganna og því líklegt að þau hafi runnið hvert yfir annað með stuttu millibili.


Hraunlögunum hallar yfirleitt inn undir gosbeltin. Hallinn er mestur neðst við sjávarmál en hann minnkar eftir því sem ofar dregur og má af því ráða að jarðlögunum hefur byrjað að halla meðan á upphleðslu stóð. Nokkuð víða kemur fram staðbundin óregla á jarðlagahallanum þar sem hraunlög liggja inn undir sprungusveimi með útkulnuðum megineldstöðvum. Sést þetta vel við austurströnd landsins þar sem jöklar hafa grafið djúpa firði og dali í berglagastaflann þannig að innviðir megineldstöðvanna koma í ljós.



Sjá meira um eldvirkni á tertíer