Blágrýtismyndunin

Um helmingur af flatarmáli landsins telst til svokallaðrar blágrýtismyndunar. Annars vegar er þar um að ræða mestan hluta berggrunnsins vestanlands frá Hvalfirði um Vestfirði til Bárðardals og hins vegar berggrunninn austanlands frá Skaftafellsfjöllum til Þistilfjarðar. Sjá d-lið á mynd og enfremur: Til blágrýtismyndunarinnar teljast elstu bergmyndanir landsins myndaðar á síðtertíer eða nánar tiltekið á síðari hluta míósen og fyrri hluta plíósen. Elstu berglög þessarar myndunar eru um 16 milljón ára gömul. Yngstu lögin frá lokum myndunarinnar og upphafi ísaldar eru hins vegar 3,3 milljón ára.


Á þessum tíma hefur mikill og þykkur jarðlagastafli hlaðist upp og á Austfjörðum er hann a.m.k. 3000 m þykkur. Þar var boruð 2000 m djúp hola sem ekki náði niður úr bergmynduninni og fjöll á þessu svæði eru um 1000 m há. Einnig hefur samanlögð þykkt einstakra laga reynst vera um 10.000 km frá rótum Gerpis og inn á Fljótsdal. Sú tala segir þó lítið því að vegna reks og halla jarðlaganna skarast þau ekki nema að litlu leyti.


Blágrýtismyndunin er að mestum hluta úr basalthraunlögum eða 80 - 85% hennar en ísúrt og súrt berg er í miklum minnihluta, aðeins um 10%. Millilög úr seti eru um 5 - 10%.



Sjá síðu um loftslag og gróður fyrir ísöld á Íslandi.