Loftslag og gróður fyrir ísöld

Steingerðar leifar gróðurs í surtarbrandslögunum gefa okkur einna besta mynd af loftslaginu meðan á blágrýtismynduninni stóð. Í þeim hafa fundist steingervingar af um 50 ættkvíslum plantna, einkum trjáa. Helstu fundarstaðirnir eru í Þórishlíðarfjalli í Selárdal við Arnarfjörð (15 Má), Dufansdals-Ketilseyrar setlagasyrpan (13,5 Má), í Surtarbrandsgili við Brjánslæk á Barðaströnd (12 Má), við Steingrímsfjörð (10 Má), við Hreðavatn (7 Má) og í Tjörneslögunum (3-5 Má).


Surtarbrandsflóran í Selárdal og á Brjánslæk virðist þegar á heildina er litið skyldust núverandi flóru í laufskógabeltinu í austanverðum Bandaríkjunum frá Ontaríóvatni og suður að ströndum Mexíkóflóa. Margar tegundir vaxa einnig í Mið- og Suður-Evrópu auk SA-Asíu, einkum Japan (magnolíutré). Í töflunni eru nokkrar þeirra tegunda trjáa sem steingervingar hafa fundist af og kortið á mynd sýnir útbreiðslu nokkurra nákominna ættingja þeirra í Norður-Ameríku.


Það eru einkum steingervingar af lauftrjám eins og valhnot og kristþyrni sem vekja athygli því að þeir gefa til kynna að meðalhiti kaldasta mánaðarins hefur verið yfir frostmarki en meðalhiti þess heitasta hefur líklega verið 15 - 20°C.


Af steingervingum í Hreðavatnslögunum má greinilega sjá að loftslag hefur kólnað því að kulvísar trjátegundir eins og beykitré eru horfnar en barrtré, birki og víðir eru orðin ríkjandi trjátegundir.


Fátt er vitað um dýralíf hér á landi fyrir upphaf ísaldar. Í Mókollsdal fundust steingerðar leifar skordýra í vatnaseti sem líklega myndaðist í öskjuvatni. Steingervingarnir eru af hármýi og blaðlús en skyldar tegundir lifa nú í SA-Asíu og suðaustanverðum Bandaríkjunum.


Litlar sem engar leifar æðri landdýra hafa fundist í blágrýtismynduninni. Nýlega fundust þó austur á landi, í 3 - 3,5 Má gömlum rauðum millilögum, steingerð beinabrot sem líklega eru úr smávöxnu hjartardýri. Nánar tiltekið var þetta í Vopnafirði í svokölluðu Þuríðargili í Burstafelli. Við þennan beinafund urðu spurningar varðandi landbrú til Grænlands eða Evrópu áleitnar. Þessi beinafundur ásamt miklum tegundafjölda íslensku surtarbrandsflórunnar bendir til tengsla um landbrú. Mikið hafdýpi á Grænlands-Færeyjahryggnum sem í sumum álum fer yfir 800 m mælir hins vegar á móti þessari hugmynd. Þó má benda á að kólnandi skorpa gæti hafa sigið sem þessu nemur og væri það þá skýringin.