Kol

Kolin eru úr jurtaleifum sem safnast hafa fyrir í mýrum og fenjum. Þar er grunnvatnið kyrrstætt og venjulegir rotgerlar sem þarfnast mikils óbundins súrefnis lifa þar því aðeins við yfirborðið. Svo mikið fellur til af lífrænum leifum plantna í mýrunum að þær ná ekki að rotna heldur kaffærast. Í leifunum lifa þó loftfirrtir gerlar sem þrifist geta á bundnu súrefni sem þar er að finna. Þeir sundra jurtaleifunum með því að losa súrefnið og vetni. Hluti vetnisins myndar mýragas (CH4) og önnur rokgjörn efni sem rjúka burt. Gerlarnir drepast í eigin úrgangi áður en þeim tekst að sundra öllum leifunum sem verða að mó með tímanum.


Mór finnst nær eingöngu í jarðmyndunum frá nútíma (yngri en 10 þús. ára) og því má víða finna hann í íslenskum mýrum en þær þekja um 1/10 landsins. Besti mórinn er ávallt neðst í mýrunum og í mýrum þar sem lítið er um áfok og eldfjallaösku.


Brúnkol (surtarbrandur eða lignít) finnast víða þar sem forn mólög hafa lent undir fargi yngri jarðlaga, einkum setlaga eða hraunlaga, eins og á Íslandi eða í Færeyjum. Þrýstingur jarðlaganna og hiti valda því að mórinn kolast og kolefnishlutfallið eykst. Brúnkolin eru eldri en mórinn, og finnast yfirleitt í jarðlögum frá tertíer (3 - 70 millj. ára).


Linkol: [bituminous kol] innihalda mikið af rokgjörnum efnum og jarðbiki og gefa því frá sér mikinn reyk við bruna. Þau eru berti að gæðum en brúnkol en standa harðkolum (gljákolum) [anthracite kol] að baki.


Steinkol myndast við enn frekari kolun en brúnkolin enda eru þau eldri og hafa orðið fyrir meiri þrýstingi og áhrifum hita.


Antrasítkol: Þar sem kol hafa kýst saman með bergi fellingafjalla er kolunin komin einna lengst og kallast þau antrasítkol. Á þau má líta sem myndbreytt berg en bæði steinkolin og brúnkolin teljast vera setberg. Ólíkt brúnkolunum og steinkolunum er erfitt að glæða eld í antrasítkolum en þegar þau brenna, brenna þau reyklaust og skila mestum varma.


Kolalögin eru oftast í víðáttumiklum linsulaga lögum milli annarra setlaga og svarar hvert lag til mýrarinnar sem þau eru upprunnin í. Yfirleitt er þykktin frá 0.5 til 3 m þó sum séu yfir 30 m þykk. Þau finnast oftast hvert upp af öðru með setlögum á milli.


Þær mýrar og fen sem kol eru upprunnin í virðast einkum hafa orðið til á tvenns konar hátt. Annars vegar inni á meginlöndum þar sem fenjasvæði voru við grunn stöðuvötn sem kaffærðu fenjasvæðin af og til þegar vatnsborð þeirra hækkaði. Hins vegar virðast miklar mýrar hafa myndast við láglendar strendur meginlanda með breiðu landgrunni þar sem sjávarstaða var breytileg á myndunartímanum.


Kol finnast einkum á norðurhveli jarðar. Mest er framleitt af kolum í Kína 24% og Bandaríkjum Norður-Ameríku 23%.




Hlutfall kolefnis:
Efni %
Viður 50
Mór 60
Brúnkol 70
Steinkol 80
Antrasít 95
Grafít 100