Olía og jarðgas

Jarðolía er úr blöndu kolvetnissambanda sem ýmist eru loftkennd, fljótandi eða seigfljótandi sem bik, (asfalt). Þar sem olía seytlar úr jarðlögum á yfirborði eins og í Mesópótamíu byrjuðu menn að nota hana lítillega löngu áður en sögur hófust og þá einkum sem lím til ýmissa nota. Einnig er talið að Kínverjum hafi tekist að safna jarðgasi og nýta eitthvað fyrir um 3000 árum. Nýting olíu hófst þó ekki að neinu ráði fyrr en um miðja síðustu öld er byrjað var að eima jarðolíu og hreinsa og jafnframt að dæla henni upp úr lindunum um borholur.


Ekki er ljóst hvernig olía verður til í jarðlögum en flest bendir til þess að hún sé af lífrænum uppruna. Rannsóknir hafa leitt í ljós að lífræn efni í ungum setlögum eru verulega frábrugðin þeim efnum sem finnast í jarðolíu. Því hlýtur sú breyting sem verður í jarðlögum þegar lífræn efni verða að olíu að vera mjög flókin. Einfalda mynd af því hvernig jarðolía verður til má draga saman í 5 eftirfarandi atriði:
Upphaflega fellur til mikið af smásæjum lífverum í höfunum, einkum plöntusvifi, sem þrífst í miklu magni við yfirborðið.
Þegar örverurnar deyja falla þær til botns. Stór hluti rotnar eða hverfur á leiðinni en afgangurinn lokast inni í leirkenndu seti sem stöðugt er að myndast á botninum. Setlög, sem rík eru af lífrænum efnum, mora af loftfirrtum gerlum en þeir losa um bundið súrefni og nitur en kolvetnissamböndin verða eftir.
Setlögin sökkva æ dýpra með tímanum og gerlarnir drepast. Á milljónum ára verða efnin fyrir miklum þrýstingi og hita og breytast smám saman í olíu og gas.
Holrýmið í setinu minnkar eftir því sem þrýstingurinn vex í jarðlagastaflanum en það gerist einkum þegar ný setlög hlaðast ofan á eða við jarðhnik og myndun fellinga. Olían leitar því inn í setlög með stærra holrými, einkum sandstein úr kvarskornum og kalkstein.
Í setlögunum flýtur gasið og olían á vatni og leitar því upp uns yfirborði er náð eða hún lokast inni og myndar olíulind þar sem hún króast af í svonefndum olíugildrum. ◊. ◊. Þær myndast við þétt jarðlög sem mynda þekju, t.d undir andhverfu, misgengi eða mislægi. Efst í gildrunni liggur jarðgas, síðan kemur olían og flýtur hún á vatni.

Ofangreint ferli er mjög einfaldað og líklegt er að breyting verði á olíunni í setlögunum þar sem hún finnst því hún er yfirleitt breytileg frá einni lind til annarrar. Eins og fram kemur í b- og d-lið hér að framan setjast olíumyndandi efni til í leirkenndu seti en set með olíulindum er mestmegnis í sandsteini og kalksteini. Það er því ljóst að olían er upprunnin í öðrum jarðlögum en hún finnst í.


Mestur hluti þeirrar olíu, sem dælt er úr jörðu, kemur úr jarðlögum á dýpi frá 600 - 2400 m. Einnig er langstærstur hluti úr jarðlögum sem mynduð eru á nýlífsöld (síðustu 70 millj. árin) en hún verður fágætari eftir því sem jarðlögin eru eldri enda hefur hún þá haft meiri möguleika á því að sleppa fram hjá gildrunum.


Stærstu framleiðendur jarðolíu- og jarðgass munu vera Austurlönd nær, þ.e. löndin umhverfis Persaflóa og er Saudi-Arabía þeirra stærst. Auk þess er mikil olíuframleiðsla í Norður-Ameríku, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku, Rússlandi og Vestur-Evrópu. (Talið eftir magni).



Sjá einnig olíusand eða jarðtjöru.



Sjá um olíuglugga.


Sjá Drekasvæðið.