Setmyndun á sjávarbotni

Setmyndunum í sjó má gróflega skipta í grunnsjávarset annars vegar og djúpsjávarset hins vegar. Grunnsjávarsetið þekur landgrunn og landgrunnshlíðar eða um 16% af hafsbotninum en að magni til er það um 99% af öllu sjávarseti.


Grunnsjávarsetið einkennist einkum af framburði fljóta og jökla og kornasamsetning þess breytist eftir fjarlægð frá strönd. Hitastig sjávarins ræður einnig miklu um hvort mikið fellur til af seti sem á sér lífrænan uppruna.


Við strendur Íslands ber mest á sand- og malarlögum sem mynda t.d. malarkamba, rif, eiði, granda, óseyrar og marbakka. Á grunnsævi fellur einnig til talsvert magn af lífrænum leifum eins og skeljasandi og berst hann oft upp í fjöru með straumum, ölduróti og vindi. Skeljasandur af botni Faxaflóa hefur verið nýttur til sementsgerðar í sementsverksmiðjunni á Akranesi.


Í hitabeltinu þar sem sjávarhiti er yfir 21°C og birta er nægileg mynda kórallar rif á grunnsævi meðfram ströndum eða umhverfis eyjar. Kórallarnir teljast til holdýra og eru í sama flokki og sæfíflar. Kóralrifunum er gjarna skipt í þrjá flokka eftir legu þeirra. Þau mynda í fyrsta lagi landfastan kraga meðfram ströndum sem lítið eða ekkert hafa sigið á myndunartímanum, í öðru lagi rif úti fyrir ströndinni þar sem fastalandið hefur sigið lítið eitt og í þriðja lagi mynda þau hringlaga rif eða atoll þar sem fastalandið eða eyjan er sokkin í sæ.



Sjá INDEXL → landmótun → hafið.