Síðkvarteru myndanirnar og hraunasvæðin (gosbeltin)

Á mótum síðkvarteru og árkvarteru myndunarinnar er oft mikið um vatnsmiklar lindir, einkum á mótum jarðlaga eins og t.d. við hálendisbrúnir í Biskupstungum (Brúará), í Ölfusi, undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit. Borholur í hraunlögum á þessu svæði gefa oft um 10 − 100 L/s.


Síðkvarteru- og hraunasvæðin eru þakin ungum grágrýtishraunum og hraunum mynduðum á nútíma. Hraunin geta verið misjöfn að gerð og útliti en eru yfirleitt mjög lek. Þegar apalhraun rennur myndast gjalllag á yfirborði sem að hluta hrynur fram fyrir hraunið og lendir undir hrauninu. Í íslenska berglagastaflanum er því oft gjalllag undir og ofan á apalhraununum en í miðjunni er fremur þétt og stuðlað hraunstál. Gjallkargalögin eru gropin og oft hriplek. Á þessu svæði eru miklar lindir og má þar nefna t.d. grunnvatnsrennsli úr gjánum norðan Þingvallavatns, Heiðmörk með Gvendarbrunnum (áætlað rennsli > 3 m3/s) |Tefnainnihald| og Kaldárbotnum  ofan Hafnarfjarðar. Miklar lindir af þessu tagi eru einnig við upptök beggja Rangánna og í Landbrotshrauni. Norðanlands teljast til þessa svæðis lindirnar við strendur Mývatns, í Kelduhverfi og við Blikalón á Sléttu. Lindir þessa svæðis gefa oft 10 − 1.000 L/s en ekki er óalgengt að heildarrennsli frá lindasvæði sé margfalt meira eða um 1 − 100 m3/s.


Grunnvatn á síðkvarteru- og hraunasvæðunum hefur síast á leið sinni um jarðlögin og er því yfirleitt hreint og ómengað. Það er því tilvalið til neyslu þar sem gerðar eru miklar kröfur til vatnsins eins og í matvælaframleiðslu.


Við strendur gengur sjór skáhallt inn undir grunnvatnið í jarðlögunum. Á eyjum og skögum þar sem jarðlög eru gropin flýtur grunnvatnið á sjónum líkt og olíudropi á vatni vegna mismunandi eðlisþyngdar. Þannig er því farið með grunnvatnslinsuna vestast á Reykjanesskaganum. Vestast á skaganum er hún aðeins um 50 m þykk en hæð hennar nær þó aðeins 1 − 2 m hæð y.s. Hún fer hækkandi eftir því sem austar dregur og vatnsborð Kleifarvatns er oftast nálægt 140 m y.s. Á Reykjanesskaga, vestan línu sem dregin er frá Hafnarfirði til Þorlákshafnar, renna hvorki ár né lækir til sjávar á yfirborði. Úrkoman hripar niður í ung jarðlögin og eina afrennslið er við strendur skagans. Heildarrennslið er talið vera um 30 − 70 m3/s. Á norðanverðum skaganum er afrennslið einkum í Straumsvík, Vatnsleysuvík og Vogavík. Áætlað rennsli í Straumsvík er talið >5 m3/s, og >1 m3/s í hinum víkunum tveimur.


Víða þar sem grunnvatn liggur undir vatnsheldu jarðlagi flæðir það upp á yfirborðið um sprungur eða borholur undan eigin þrýstingi og er það kallað artetískt vatn.


Um 60% landsmanna fá neysluvatn sitt úr grunnvatni Reykjanesskaga. Mest af vatninu er fengið á Heiðmerkursvæðinu og við Kaldárbotna. Vatnstekjan er að meðaltali 1.2 m3/s sem jafngildir u.þ.b. 800 L á dag á íbúa en það er með því hæsta sem gerist.


Neysluvatn er vafalítið mikilvægasta jarðefnið sem við nýtum. Þessa auðlind þarf því að umgangast með varúð og nýta með fyrirhyggju. Rányrkja og spilling grunnvatnsforðans með slæmri umgengni veldur okkur og komandi kynslóðum óbætanlegu tjóni.



Sjá ennfremur: sprungulind og vellankötlu.