Myndun stórra fjallgarða

Fellingahreyfingar og myndun fellingafjalla, sem á fræðimáli kallast orogeny, var mönnum lengi vel hulin ráðgáta og skoðanir jarðfræðinga skiptar í því efni. Vestanhafs veittu menn því athygli að Strandfjöllin lágu samsíða vesturströndinni og Appalachiafjöllin samsíða austurströndinni. Um og fyrir 1960 álitu bandarískir jarðfræðingar því að fellingahreyfingar yrðu einkum meðfram meginlandskjörnum. Í Evrópu voru hins vegar flestir jarðfræðingar lengi vel á annarri skoðun. Þeir veittu því athygli að Úralfjöllin stóðu á Evrasíu-meginlandinu, einu stærsta meginlandi jarðar. Þeir ályktuðu því að fellingahreyfingar gætu orðið á miðju meginlandi. Flekakenningin skýrir í raun hvort tveggja. Staðreyndin er sú að langir fellingafjallgarðar rísa aðeins meðfram ströndum meginlanda á flekamótum þar sem sökkbeltin eru. Meginlönd geta hins vegar rekist hvort á annað og rísa þá fellingafjallgarðar á samskeytunum inni á hinu nýja meginlandi. Þetta gerist á flekamótunum þar sem sökkbeltin eru.


Ekki má þó gleyma því að stórir fjallgarðar rísa á flekaskilum þar sem úthafshryggirnir eru, eins og Atlantshafshryggurinn, þrátt fyrir að það gerist með allt öðrum hætti.