Flekar og fellingahreyfingar

Myndun fellingafjallgarða kallast fellingahreyfingar [orogeny]. Þetta er flókið ferli atburða og enn er margt á huldu um flesta þætti þessarar þróunar. Það sem einkum eykur á margbreytileik þessara myndana er að fellingahreyfingarnar gerast ýmist þar sem úthafsfleki skríður undir meginlandsfleka eða á samskeytum meginlanda sem hafa rekist á.


Þegar tvö meginlönd nálgast brotnar úthafsflekinn og skarast. Yngri hluti flekans skríður undir þann sem eldri er og á mörkunum myndast eyjabogi. Set skrapast af hafsbotninum og hrúgast upp þar sem úthafsflekinn skríður niður og sekkur. Þetta set er síðan talið verða að ormgrýti [ophiolite].


Um leið og úthafsflekinn skríður undir eldri flekann og sekkur verður hlutbráðnun og súr kvika stígur upp og myndar mikla berghleifa úr súru bergi. Þeir eru tiltölulega eðlisléttir og auka á flot fellingafjallanna. Eyjaboginn og síðar fellingafjallgarðurinn myndar dæmigerðan kjarna. Báðum megin eru belti með myndbreyttu bergi. Þessi belti eru úr bergi sem myndbreyst hefur vegna hita við snertingu við heit innskot frá kjarna fjallgarðsins.


Myndbreytingin deyr út til beggja átta frá fjallshryggnum. Landmegin myndar myndbreytta bergið belti af fellingum og þrýstimisgengjum og bera þau með sér að þeim var þrýst frá hryggnum. Setlög landmegin og fjær hryggnum eru síður myndbreytt og ekki eins samkýtt og felld eins og berglögin í myndbreyttu beltunum. Þau eru líka stekkri og brotna upp í misgengisblokkir með feikilegum þrýstigengjum þegar þær ýtast upp á skorpu meginlandsins.


Þegar eyjabogi nálgast meginlandið svignar skorpan landmegin niður og strandhaf myndast. Strandhafið dýpkar fljótt og fyrsta setið er yfirleitt svokölluð flyksa [flysch] sem að mestu er leirskífa og sandsteinn úr svörtum leir og grávakka. ◊. Svartur leirinn vitnar um hæga setmyndun leirs og eðju á milli þess sem eðjustraumar falla niður í hafdýpið. Eftir því sem fellingahreyfingin heldur áfram og færist innar vöðlast þessar myndanir saman. Á meðan lyftist fjallgarðurinn og strandhafið grynnist og hverfur loks alveg. Setið, sem berst þá niður í lægðina, fyllir hana loks þannig að hún þornar upp og öll setmyndun verður landræn. Set sem þannig myndast á grunnsævi, í aurkeilum eða áreyrum er kallað molasse. Nöfnin flyksa og molasse eru ættuð frá Ölpunum þar sem þessar bergtegundir finnast í jarðlagasniðum. Flyksa (flysch) er aðallega svartur leirsteinn (shale) og finnst í Helvítísku Ölpunum en molasse er úr blöndu völubergs og sandsteins sem myndast hefur í vatni.


Þegar meginlandsflekarnir mætast kýtist eyjaboginn upp að meginlandinu. Meginlandsflekinn sem ýtti úthafsflekanum á undan sér fylgir úthafsflekanum og sekkur að hluta undir hinn meginlandsflekann.


Virk fellingahreyfing við Súmötru: ◊.

Sjá ennfremur um tsunami.


Sjá flekamót.


Sjá um jarðtrog.


Sjá INDEXF → fellingafjöll, fellingahreyfingar, fellingar.