Óslitin eldvirkni

Atlantshafshryggurinn er mikill úthafshryggur með stöðugri eldvirkni og liggur hann eftir Atlantshafi endilöngu. Hryggurinn rís hátt og á nokkrum stöðum þar sem eldvirknin er meiri en annars staðar myndar hann eyjar. Ísland er ein þessara eyja og jafnframt sú stærsta á hryggnum og er berggrunnur landsins því sem næst allur hlaðinn upp við óslitna eldvirkni síðustu 20 milljón árin.


Frá síðjökultíma, en hann hófst fyrir um 18.000 árum, hafa jarðeldar á Íslandi brunnið á virku gosbeltunum sem ganga um landið þvert frá Reykjanestá og Vestmannaeyjum norður til Axarfjarðar.


Á nútíma, sem hófst við ísaldarlok fyrir 10 þúsund árum, einkennist eldvirkni á Íslandi af mikilli framleiðslu hrauna, einkum basalthrauna og er ekki fjarri lagi að þriðjungur af rúmmáli þeirra hrauna, sem runnið hafa á þurrlendi jarðar síðustu aldirnar, sé hér á landi. Aftur á móti er rúmmál gjósku hlutfallslega minna og þar er hlutur Íslands líklega innan við 5%. Hér er einnig meiri fjölbreytni en ætla mætti í gerð eldstöðva á úthafseyju, sem situr klofvega á úthafshrygg, og má segja að hér finnist flestar gerðir eldstöðva.


Margt bendir til þess að undir Íslandi sé efsti hluti möttulsins aðeins að litlu leyti bráðinn en stærstur hluti hans sé hins vegar fast en deigt efni. Þetta deiga hlutbráðna kvikulag er um 5 - 14 km þykkt og talið greina jarðskorpu Íslands frá möttlinum. Utan gosbeltanna er það á 20 - 30 km dýpi en innan gosbeltanna á 8 - 10 km dýpi. Þar er því jarðskorpan þynnst og veikust fyrir þeim kröftum sem takast á er plöturnar rekur hvora frá annarri.