Á gosbeltunum virðist svo sem kvikulagið myndi þykkildi undir jarðskorpunni. Þar teygir það sig neðar í möttulinn en annars staðar og skýtur jafnframt kryppu upp í jarðskorpuna þar sem hún er veikust fyrir. Efst er þykkildi þetta hlutbráðið og kallast kvikuþró. Þar sem kvikuþróin teygir sig upp undir jarðskorpuna brotnar þunn skel jarðskorpunnar og myndast við það þyrpingar af skástíga gossprungum og sigmisgengjum en þau eru einmitt einkennandi fyrir gliðnun á úthafshryggjum. Slíkar sprunguþyrpingar kallast sprungusveimar og mynda þeir sjálfstæð og aðskilin eldstöðvakerfi eftir legu og efnasamsetningu gosefna. Hér á landi má greina um 30 slík eldstöðvakerfi.


Skýringamynd með hlekkjum í fleiri myndir.