Basísk gos undir jökli eða neðansjávar — blandgos gjósku og hrauna

Basísk eldgos undir vatni geta orðið þar sem virk sprungukerfi liggja undir jöklum eða á landgrunninu. Besta dæmið um slíkt gos er Surtseyjargosið sem hófst 1963 og stóð til 1967. Verði gos undir jökli bræðir kvikan geil í ísinn yfir gosrásinni. Sjá mynd: ◊. Talið er að 1 m3 af basaltkviku gefi frá sér varma sem nægi til að bræða 10 m3 af ís. Þannig ætti meðalstórt sprungugos, þar sem kvikuflæðið er að jafnaði mest í upphafi, að geta brætt sér eins rúmkílómetra vatnsfyllta geil í ísinn á fáum dögum.


Ef vatnsþrýstingur er nægur þegar gýs undir vatni myndast bólstraberg við berggrunninn á botninum. Eftir því sem bólstrabergsbingurinn hrúgast upp í vatninu, og hækkar, hrynur meira úr hlíðum hans og skriður úr bólstrabrotabergi myndast. Haldi gosið áfram eykst upphleðsla gosefnanna og með grynnkandi vatni minnkar vatnsþrýstingurinn. Þá hættir bólstrabergsmyndunin því þrýstingurinn nægir ekki til að halda vatnsgufu og gosgufum í skefjum. Gosið breytist þá í þeytigos með gjóskuframleiðslu. Með áframhaldandi þeytigosi hlaðast upp gjóskulög ofan á bólstrabergsbingnum.   Úr slíkri gjósku, sem verður til við gos undir vatni, verður til móberg, ummyndað og samanlímt basaltgler. Nái gígurinn upp fyrir vatnsborðið þannig að vatn komist ekki í snertingu við kvikuna í gosrásinni rennur hraun. Hraunið rennur þá út í vatnið við fjöruborðið umhverfis og myndar bólstraberg á ný. Það brotnar jafnharðan upp og veltur í vatninu niður hlíðarnar og myndar skálaga bólstrabrotaberg.  Sjá d-hluta myndar: ◊.


Eins og á þurru landi eru sprungugos algengustu basísku gosin undir jökli. Þau eru líka misstór sem og önnur gos. Fremur lítil sprungugos ná aðeins að mynda bólstrabergshryggi eins og Sigöldu við Tungná og Dráttarhlíð milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns. Stærri sprungugos, sem komast á þeytigosstigið, mynda mikla móbergshryggi. Dæmi um slíka fjallgarða eru Sveifluháls við ◊. Kleifarvatn, Jarlhettur Kálfstindar norðan Lyngdalsheiðar og Fögrufjöll austan Langasjóar. Sprungugosin ná vanalega aðeins fyrstu tveimur stigunum. Samsvarandi gos á sívölu gosopi mynda aðeins móbergskeilu eins og Keili á Strandarheiði.


Stærstu gosin undir jökli eða í vatni, sem gjósa úr sívalri gosrás og samsvara dyngjugosum á þurru landi, komast á seinasta stigið og ná að mynda eyjar með hraunhellu efst. Slík fjöll nefnast stapar. Nýjasta dæmið um slíkt gos er Surtseyjargosið en fjölda tignarlegra stapa frá seinasta jökulskeiði er að finna á virku gosbeltunum. Dæmi um þá eru mörg. Norðanlands, á norðurhluta austurbeltisins, er Herðubreið og við Mývatn eru Sellandafjall, Bláfjall og Búrfell. Sunnanlands á Reykjanes-Langjökuls-rekbeltinu eru Eiríksjökull, Hrútfell á Kili, Hlöðufell austan Skjaldbreiðs, Hvalfell, Hrafnabjörg, Ingólfsfjall, Hengill og Geitafell vestan Þrengslavegar.