Gervigígar verða til þegar hraunbráð rennur yfir mýri, blautan sand eða sprungið hraun þar sem grunnvatnsstaða er há. Vatnið sýður við snertingu kvikunnar og vatnsgufan sem myndast sprengir hraunþekjuna af sér en við það þeytist hraunbráðið upp og storknar sem gjall. Þannig geta gjallgígar hlaðist upp og kallast þeir gervigígar. Þeir fylgja engri sprungustefnu heldur mynda óreglulegar þyrpingar þar sem áðurnefnd skilyrði voru fyrir hendi, einkum þó í dældum og dölum.


Gervigígar myndast oft þar sem hraun í miklum flæðigosum rennur yfir gegnsósa set. Rennsli í slíkum hraunum verður að miklu leyti í lokuðum rásum í hrauninu. Líklegt er að gervigígar fái efni sitt um láréttar aðfærsluæðar, lokaðar hraunrásir, sem liggja alla leið frá sjálfum gosstöðvunum og að frambrún vaxandi hraunbreiðunnar. Með þessu móti má skýra óvenju mikið efnismagn sumra gervigíganna, – þeir eru að fá byggingarefni lengi eftir að hraunbreiðan í kring hefur stöðvast. Ef rásirnar rofna og hraunbráðin kemst í snertingu við vatnsósa set verða gufusprengingar sem tæta hraunbráðina í sundur og mynda gjall sem þeytist upp ásamt hraunslettum og gusum af seti. Hraunrásin heldur áfram að flytja hraunbráð að gervigosinu. Fyrst hlaðast upp gjallbingir, oft sæmilega vel lagskiptir, með miklu vatnaseti í bland. Þegar líður á gosið og vatnsmagn minnkar verður gjallið grófara, og að lokum slettist einungis upp bráðið hraun með molum af hálfbráðnu seti. Gosið getur minnkað í áföngum og myndast þá minni gígar innan í þeim stærri. ◊.


Þekktustu gervigígamyndanir hér á landi eru í Yngra-Laxárhrauni við Mývatn sem rann frá gígaröðinni Þrengsla- og Lúdentsborgum fyrir um 2000 árum. ◊. Má þar nefna Skútustaðagíga og flestar eyjarnar í Syðriflóa Mývatns. Sama hraun rann einnig norður Laxárdal og síðan áfram norður Aðaldal til sjávar við Skjálfandaflóa. Í Laxárdal eru gervigígarnir Rauðhólar og einnig er að finna gervigígaþyrpingu í Aðaldal. Stærsta samfellda gervigígamyndunin hér á landi er Landbrotshólar þar sem Eldgjárhraun fellur um Landbrot (Landbrotshraun). Rauðhólar við Elliðavatn eru einnig gervigígar í Elliðaárhrauni sem rann frá dyngjunni Leiti fyrir u.þ.b. 4600 14C-árum (5.200 BP).



Til baka í föst gosefni.