Setlög sem hafa að geyma steingervingaannál nýlífsaldar eru flest lítt hörðnuð þó svo að flest kalklög og mörg siliköt frá nýja-tímabilinu séu hörðnuð og steinrunnin. Nýlífsöld er oft skipt í forna tímabilið (paleógen) og nýja tímabilið (neógen) en samkvæmt venju hefur nýlífsöld verið skipt í tertíer og kvarter. Þessi skipting í tímabil er þó aukaatriði því fremur er stuðst við skiptingu í tíma [epoc] hvað jarðlög frá þessum tímabilum varðar. Ástæðan er sú að setlög frá mismunandi tímum nýlífsaldar eru svo vel aðgreind að mörk þeirra verða í flestum tilfellum vel greind. ◊.


Charles Lyell varð fyrstur til að skilgreina og skipta tertíertímabilinu í eósen, míósen og plíósen árið 1833 í Parísar- og Lundúnalægðinni. Það var svo ekki fyrr en 1854 að ólígósen-lögin voru greind frá eósen-lögunum í Þýskalandi og Belgíu og síðar eða 1874 í Parísarlægðinni. Um svipað leyti skilgreindi svo Wilhelm Schimper (1874) elsta hlutann paleósen.


Við lok krítartímabilsins urðu mikil umskipti í jarðsögunni. Myndun þykkra kalksetlaga úr leifum nanósvifs var lokið og varla lifði nokkur belemníti útdauðan af, ammónítar, rudist-samlokur og fiskeðlur voru horfin fyrir fullt og allt. Þau sjávardýr sem komust af voru einkum lindýr og beinfiskar sem koma flest kunnuglega fyrir sjónir nú. Á landi líktist flóran því sem hafði einkennt síðkrít.


Mestu landfræðilegu breytingarnar sem urðu á paelógen-tímabilinu var kólnun loftslags á heimskautunum en hún hafði kælingu djúpsjávar og myndun jökla í för með sér. Í Norður-Ameríku var fellingamyndun forna tímabilsins (paleógen) eins konar forspil að fellingamyndun nýja tímabilsins (neógen) eins og Sierra Nevada og Klettafjalla. Í Suður-Evrópu telst ris Alpafjalla til álíka markverðra viðburða.

Forna tímabilið (paleógen)

Nútíma lífkerfi skipa að mestu þær tegundir dýra, plantna og einfrumunga sem lifðu af aldauðann í lok krítartímabilsins og náðu sér aftur á strik á nýlífsöld. Fjöldi sviflægra götunga, ígulkerja, mosadýra, krabba, snigla og fiska lifði af í svo stórum stíl að það stóð undir útbreiðslu þessara tegunda á nýlífsöld. Ef til vill högnuðust kórallarnir mest á útdauðanum við lok krítartímabilsins því þeir höfðu orðið að lúta í lægra haldi fyrir rudist-samlokum við upphleðslu rifja á mið-krít en endurheimtu stöðu sína eftir aldauða rudist-samlokanna. Því miður er lítið um jarðlög með kóralrifjum frá paleósen sumpart vegna þess að lítið er um setlög mynduð í hitabeltinu frá þessum tíma. Það hve lítið er um kórala í lögum frá þessum tíma bendir þó eindregið til þess að þeir tóku ekki strax við sér en á hlýja eósen-tímanum sem kom á eftir paleósen voru þeir aftur orðnir útbreiddir.


Kalkríka nannosvifið sem varð fyrir miklum áföllum í lok krítartímabilsins jókst aftur að fjölbreytni á paleósen. Þessar tegundir ásamt kísilþörungum og skoruþörungum sem ekki urðu eins illa úti hafa staðið undir frjósemi hafanna á nýlífsöld líkt og þau gerðu á krít.


Þó svo að lífríki sjávar á forna tímabilinu líkist mjög því sem var á síðkrít voru sumar tegundir nýjar eins og hvalir sem þróuðust af landdýrum. Ásamt hvölunum sem komu í stað fiskeðla var fjöldi risavaxinna hákarla sem þróast höfðu af líkum tegundum á krít. Stærstur varð Carcharodon (eða Carcharocles) megalodon [μέγας og ὀδούς: „stór tönn“], allt a að 18 m langur og ≈ 70 tonn. ◊.


Nýjar tegundir ígulkerja og samloka sem löguðu sig að lífi á sendnum botni stranda komu fram og sömuleiðis birtust sundfuglar, mörgæsir, rostungar, selir og sæljón.