Flóran

Hvað flóruna varðar má kalla nýja tímabilið tímabil blómjurta. Velgengni þeirra má skýra með versnandi loftslagi á ólígósen og míósen. Þegar skógar drógust saman vegna þurrka sóttu blómjurtir fram enda geta þær þrifist þó að úrkoma sé lítil. Nú finnast t.d. um 10.000 tegundir grasa.


Til körfublómaættarinnar sem er mikilvæg ætt blómjurta teljast margar algengar jurtir. Hún kom fyrst fram í byrjun nýja tímabilsins fyrir um 20 - 25 milljónum ára og nú teljast um 13.000 tegundir til þessarar ættar.


Loftslagsbreytingar á nýja tímabilinu má sumpart rekja til jarðskorpuhreyfinga (fjallgarða) sem mynduðu regnvar í Austur-Afríku, við vesturströnd Norður-Ameríku og í Suður-Ameríku. Einnig hefur myndun Alpa- og Himalajafjalla sömuleiðis haft áhrif á loftslag og gróður.


Jökulmenjar þ.á.m. grettistök fallsteinar í sjávarseti á botni Suður-Kyrrahafs sýna að skriðjöklar Suðurskautslandsins gengu í sjó fram á míósen. Botnsjávarset sýnir einnig að kísilþörungaeðja sem algeng var við Suðurskautslandið færðist norður á bóginn á kostnað kalkþörungaeðju sem aðallega fellur til botns í hlýjum sjó. Vegna þessarar kólnunar sjávar við heimskautin er míósen talið marka upphaf mikillar og greinilegrar aðgreiningar tegunda svifs eftir fjarlægð frá miðbaug og hefur hún haldist síðan.