Elstu fremdardýr

Sjá: Darwinius masillae sem lifði fyrir 47 Má. ◊.


Fyrir um 33 milljónum ára eða á ólígósen lifði lítið skógardýr sem virðist hafa verið af ættbálki fremdardýra og hefur því verið gefið tegundarnafnið Aegyptopitecus. Það lifði á ávöxtum og hnetum í hitabeltisregnskógum þeim sem á þessum tíma voru í norðanverðri Afríku á því svæði sem Egyptaland er nú. Dýrið hafði limaburð apakattar en augn- og tannbúnaður líktist því sem gerist hjá mannöpum. Þetta var eins konar frumapi, sem hefur að öllum líkindum verið forfaðir þeirra dýra er teljast til ættbálks prímata.  Til þessa ættbálks telst yfirættin hominoidea sem svo greinist í þrjár ættir: ætt gibbona (hylobattidae), ætt mannsins (hominidae) og ætt mannapa (pongidae) en til hennar teljast simpansar, górillur og órangútar.


Margt er á huldu um þróun prímata enda er saga sú sem rekja má út frá steingervingum þeirra afar gloppótt. Í jarðlögum frá míósen finnast steingervingar prímata af ættunum Dryopithecidae og Ramapithecidae (ramapar). Dryopithecidae voru líkari öpum enda er saga þeirra eldri og byrjar hún í Afríku fyrir um 20 milljónum ára í þann mund sem landbrú var að myndast milli Afríku og Evrasíu. Steingervinga þessara prímata gætir því fyrst í 16 milljón ára gömlum jarðlögum Evrasíu, fjórum milljónum ára eftir að landbrúin varð til. Fyrir um 10 milljónum ára virðast þeir svo deyja út. Ramapithecidae sem eru af mörgum álitnir þróast af Dryopithecidae virðast líkt og þeir vera upprunnir í Afríku. Elstu leifar Ramapithecidae eru frá Kenýa í 17 milljón ára gömlum jarðlögum og svo er að sjá sem þeir hafi breiðst út til Evrasíu um líkt leyti og Dryopithecidae því að þar hafa fundist elstu steingervingar þeirra í 16 til 15 milljón ára gömlum jarðlögum. Ramapithecidae var að mestu útdauður á míósen og aðeins ein tegund hans lifði fram á pleistósen. Þótt tann- og kjálkaskipan Ramapithecidae líkist nokkuð því sem gerist hjá mönnum hefur ekki tekist að sýna fram á tengsl mannapa eða frummannsins við Ramapithecidae. Þessu veldur skortur á steingervingum í jarðlögum frá seinni hluta míósen fyrir 8 milljónum ára til öndverðs plíósen fyrir um 4 milljónum ára.



Sjá um prímata.