Ný meginlönd og höf

Þó svo að Pangea hafi brotnað í sundur snemma á miðlífsöld lágu meginlöndin sem mynduðust úr brotunum þétt saman í byrjun krítar. Áframhaldandi tvístrun brotanna telst vera meðal mikilvægustu landfræðilegra viðburða á jörðinni á krítartímabilinu. Þar ber hæst sundrun Gondvanalands. Við upphaf tímabilsins höfðu mjó sund aðskilið Suður-Ameríku og Afríku frá Suðurheimskautslandinu, Ástralíu og Indlandsskaga sem enn lágu saman. Undir lok tímabilsins hafði Indlandsskagi einnig slitnað frá og áðurnefnd sund breikkað að mun en Suðurheimskautslandið og Ástralía héngu enn saman.


Áðurnefnd tvístrun meginlandanna á krít myndaði ný höf og þau sem fyrir voru stækkuðu. Þar ber hæst víkkun Suður-Atlantshafsins, Mexíkóflóa og Karabíahafs. Á júra höfðu saltlög myndast þegar sjór flæddi af og til inn í lægðir sem voru undanfari áðurnefndra hafa. Við upphaf krítartímabilsins tengdust þessar lægðir úthöfunum en lokuðust við og við af þannig að salt myndaðist meðfram söltum stöðuvötnum sem einangruðust.


Reyndar mynduðust saltlög víða um lönd á árkrít og bendir það til stöðugs hlýs loftslags. Þetta hlýja loftslag olli því einnig að kóralrif náðu að myndast allt að 30. breiddargráðum sunnan og norðan miðbaugs. Enn frekari vísbendingar eru steingervingar hitabeltisjurta í Grænlandi og Alaska. Þetta heita loftslag olli því e.t.v. að staðvindarnir teygðu sig enn nær pólunum en nú þannig að uppgufun og saltmyndun varð víða á leið þeirra til miðbaugs.


Það sem einkum einkenndi legu meginlanda á krít var Tethys-sundið. Í því mynduðu staðvindarnir hafstraum sem rann án fyrirstöðu frá austri til vesturs. Í þessu hafi voru kóralrif áberandi ásamt rudist-ssamlokum, botnlægum götungum og vissum tegundahópum ammóníta. Eins og á júra var Tethys fyrst og fremst hitabeltissvæði þar sem myndun kalsíumkarbónats var mest áberandi setmyndunin.


Á árkrít var Norður-Íshafið einangrað frá Atlantshafi og því lifði þar ólík fána. Seinna á tímabilinu lauk þessari einangrun þegar landrek skildi að Norður-Ameríku, Grænland og Evrasíu. Það var ekki aðeins landrek sem sameinaði Norður-Íshafið og Atlantshafið á síðkrít. Stöðug hækkun sjávarborðs (áflæði) sem einkenndi mestallt krítartímabilið myndaði mjótt sund sem náði frá Mexíkóflóa um Norður-Ameríku til Norður-Íshafsins.



Afstaða meginlanda við K/T-mörkin:


Afstaða meginlanda á síðkrít:


Afstaða meginlanda á síðjúra:


Sjá síðu um Alpa-fellinguna.