Uppruni Alpanna

Uppruna Alpanna má rekja til upphafs miðlífsaldar þegar Afríka og Evrasía voru hlutar stórmeginlandsins Pangeu. Á trías-tímabilinu byrjuðu flekaskil að myndast þar sem nú er Miðjarðarhaf. Tethyshafið hafði flætt inn yfir þetta svæði áður en gliðnunin hófst en sjórinn var grunnur því hafsbotninn var úr meginlandsskorpu. Um leið og jarðhnik og eldvirkni braut upp og raskaði kalksteinslögum á trías og júra byrjaði fínkornótt djúpsjávarset úr svifi með kalk- og kísilskeljum að myndast.


Um miðja miðlífsöldina (júra) var landrek á núverandi Miðjarðarhafssvæði bundið við djúpt Penninahafið sem þá var nýmyndað. Norðan hafsins var Evrasíufleki en í suðri var Afríkuflekinn ásamt nokkrum smáflekum sem einnig voru brot úr Pangeu. Tvo þessara fleka rak norður og upp að Evrasíu á síðkrít. Nú er annar þeirra Íberíuskagi en hinn kallast Adríafleki þar sem er Ítalíuskagi, Botn Adríahafs og Dalmatíuströnd. Hreyfing þessara smáfleka á miðlífsöld og nýlífsöld er ekki þekkt í smáatriðum en svo virðist sem Adríaflekinn hafi á miðlífsöld lagst að Balkanskaganum á Evrasíuflekanum. Síðar eða á síðkrít brotnaði Adríaflekinn frá og rak til norðurs og kýtti Ítalíuskaga að Evrasíu og varð það til þess að Alparnir mynduðust. ◊.


Bergtegundirnar ormgrýti, flyksa (flysch), mólassi og storkuberg, sem má aldursgreina, vitna um þessa atburðarás. Í fyrsta lagi er ljóst að Adríaflekann rak á sniðgengi norður með Balkan og að ströndinni þar sem Sviss er nú fyrir 45 Má. Við áreksturinn sköruðust flekarnir þannig að Adríaflekinn rann uppá meginlandskjarna Evrasíu þar sem skorpan þykknaði þegar storkubergsmyndanir hrúguðust upp og fellingar mynduðust. ◊. ◊.


Alpahreyfingin hófst líklega á krít fyrir um 100 Má en hún náði ekki hámarki fyrr en á míósen og var hún í gangi þar til á míósen fyrir u.þ.b. 10 – 5 Má þegar yngstu mólassalögin hlóðust upp.