Útdauði í lok ordóvísíum

Nokkrum milljónum ára áður en ordóvísíum lauk fóru jöklar að vaxa umhverfis suðurheimskautið og ordóvísíum lauk með kuldakasti og útdauða. Svo virðist sem rek Gondvanalands yfir suðurheimskautið hafi komið ordóvísíum-ísöldinni af stað. Jökulminjar mikils jökuls er að finna í norðvestanverðri Sahara sem líklega hafa verið á suðurheimskautinu á þessum tíma og einnig við Bab al Mandeb-sund milli Arabíuskaga og Afríku. Við myndun jökulsins lækkaði í höfunum og grunnsævi minnkaði en óvíst er hvort það hafi haft afdrifarík áhrif á lífríkið.


Hækkandi styrkur δ18O bendir einnig til kólnunar. Súrefni með tiltölulega léttar samsætur binst í sórum jöklum jökulskeiða og við það hækkar hlutfall 18O/16O í höfunum og þess súrefnis sem binst í hörðum líkamshlutum dýra á meðan þessu fer fram.


Hækkandi styrkur δ13C í lok ordóvísíum bendir til þess að stór hluti 12C hafi grafist með þeim afleiðingum að 13C/12C hækkar.


Þessi útdauði var einn sá afdrifaríkasti fyrir sjávarlífverur sem yfir gekk á fornlífsöld og líklega hafa um 100 ættir dýrategunda orðið aldauða. Hann eyddi samfélögum sem stóðu að upphleðslu á rifjum og einkenndust mest á þessum tíma af mosadýrum, kóröllum og svömpum. Þríbrotar, nátílar, armfætlur, sæliljur og mosadýr urðu einnig illa úti. Auk loftslagskólnunarinnar virðist hreyfing fleka hafa skipt miklu máli við að hrinda af stað þeirri atburðarás sem varð orsök útdauðans.


Þegar útdauði sjávarlífvera verður vegna kólnandi loftslags hefur það fyrst og fremst áhrif á lífverur sem halda sig í hitabeltinu. Þær sem eru á tempruðum svæðum færa sig nær miðbaug en þær sem þar eru hafa ekki í nein hús að venda og drepast því við kólnun umhverfis. Þetta sést vel á þeim breytingum sem urðu á steingervingafánunni á síðordóvísíum.



Yfirlit kambríum − ordóvísíum.