Sílúr og Devon

Sjávarstaða var há á sílúr- og devontímabilinu, og því er sjávarset frá þessum tíma að finna á öllum meginlöndum nú. Setmyndunin raskaðist þó verulega milli Baltíku og Lárentíu þar sem eitt mesta plötuhnik fornlífsaldar átti sér stað er Kaledóníu fellingin myndaðist í Evrópu og Acadian-myndunin varð í Appalachianfjöllum Norður-Ameríku.


Í Kaledóníuhreyfingunni á norðanverðum Bretlandseyjum hnikuðust setlög frá sílúr til og sporðreistust og mynduðu þannig mislægi við setmyndun frá devon sem lagðist ofaná.


Líf blómstraði í grunnum höfum sílúr- og devontímabilsins og í hitabeltinu mynduðust stærri rif en áður höfðu þekkst. Ber þar mest á töflu- og rúgósakóröllum auk svampa. Á þessum tíma voru rándýr í örri þróun og kjálkafiskar urðu, sumir hverjir, álíka stórir og stærstu hákarlar nú. Plöntur voru þá einnig að nema land á votlendi og mynduðu stóra skóga á síðdevon. Fyrstu skordýrin eru einnig frá devon og í lok þess tímabils skriðu fyrstu hryggdýrin á land eftir að uggar forfeðra þeirra höfðu breyst í fætur. Skömmu fyrir lok devontímabilsins eyddi mikill útdauði mörgum dýrategundum og varð því rýmra um þær sem lifðu útdauðann af.


Flestar þær tegundir sjávardýra sem náð höfðu mikilli útbreiðslu á ordóvísíum juku aftur á fjölbreytni sína eftir útdauðann í lok þess tímabils og urðu áberandi sjávarlífverur á sílúr og devon. Þetta gildir þó ekki um þríbrotana sem náðu sér aldrei á strik eftir þennan útdauða.


Samlokur og kuðungar af fylkingu lindýra tímguðust vel á sílúr og devon og elstu steingervingar ferskvatnssamloka eru frá síðdevon. Armfætlur og mosadýr juku einnig á fjölbreytni sína. Acritarcha af fylkingu skorpuþörunga voru ríkjandi svifþörungar á þessum tíma.


Eftirtektarverð er þróun graptólíta sem voru nær aldauða í lok ordóvísíum en steingervingar þeirra í setlögum á Bretlandseyjum sýna að þeir fjölguðu sér úr 12 í 60 tegundir á 5 fyrstu Má sílúr-tímabilsins. Mikið bar einnig á skrápdýrum og virðist sem sæliljunum [crinoida] hafi vegnað best.


Uppbygging rifja tók einnig ýmsum breytingum á sílúr. Elstu rif miðordóvísíum voru einkum mynduð af mosadýrum en undir lok tímabilsins voru töflukórallar og svampar meira áberandi.


Ein mesta breytingin sem varð um miðbik fornlífsaldar fólst í tilkomu syndandi rándýra. Þau mikilvægustu meðal hryggleysingja voru ammónítar (mollusca). Margar tegundir þeirra náðu mikilli útbreiðslu en lifðu í skamman tíma og gegna steingervingar ammoníta mikilvægu hlutverki sem einkennissteingervingar til loka fornlífsaldar þegar þeir dóu nánast út. líkt og þríbrotar gerðu á kambríum. Sæsporðdrekar (Eurypterida) sem töldust til fylkingar liðfætlna (arnthropoda) voru einnig mikilvæg rándýr um miðbik fornlífsaldar. Þessir fjarskyldu ættingjar sporðdreka voru sunddýr og margir höfðu klær. Þótt sæsporðdrekarnir kæmu fram á ordóvísíum og lifðu fram á perm ber mest á steingervingum þeirra í setlögum frá sílúr og devon. Ólíkt ammónítunum breiddust sæsporðdrekarnir út í ísöltu vatni og ferskvatni.


Önnur sunddýr sem höfðu aðlagað sig lífi bæði í söltu og ósöltu vatni á þessum tíma voru fiskarnir. Frá upphafi fornlífsaldar finnast aðeins steingerðar slitrur af beinagrindum fiska og þá aðeins í sjávarseti. Í sjávar- og ferskvatnsseti frá sílúr og devon finnst hins vegar urmull vel varðveittra steingervinga fiska. Ekki er vitað hvenær ferskvatnsfiskar komu fram og þó svo að allir steingervingar fiska frá kambríum - ordóvísíum finnist í sjávarseti færir það ekki sönnur á að fiskar hafi fyrst komið fram í höfunum. Engu að síður styður það fremur þá hugmynd.


Sílúr - devontímabilið hefur stundum verið nefnt tímabil fiskanna því þeir voru einu hryggdýrin á jörðinni til loka devontímabilsins.


Ólíkt steingervingum fiska frá kambríum - ordóvísíum sem flestir finnast í sjávarseti finnast flestar steingerðar leifar fiska frá sílúr í ferskvatnsseti. Þar ber mest á brynfiskum [ostracoderm] sem teljast til vankjálka. Þeir voru lítil dýr klæddir brynju úr beinplötum, með pöruð augu eins og algengt er hjá þróaðri hryggdýrum en ólíkir núlifandi fiskum að því leyti að kjálkann vantaði. Uggar voru ófullkomnir og þeir voru brynjaðir beinplötum. Auk þess höfðu þeir aðeins lítinn munn og gátu því aðeins innbyrt agnir sem fæðu. Margir þessara fiska eins og Hemicyclaspis voru flatir að neðan og renndu sér eftir botninum í ám og vötnum og sugu þar upp ætisagnir.


Seint á sílúr komu fram sjávar- og ferskvatnsfiskar sem voru mjög ólíkir þeim sem fyrir voru. Þetta voru fiskar, sem tilheyra brodduggum (acanthopterygii) undirflokki kjálkafiska. Þeir eru taldir vera fyrstu fiskarnir með ýmsum þeim líffærum sem áttu eftir að einkenna síðari tíma fiska. Þar má nefna paraða ugga, hreistur í stað beinplatna og kjálka en hann var hvað mikilvægastur í þróuninni. Með kjálkanum opnuðust möguleikar á fjölbreytilegri þróun hryggdýra, einkum rándýra, og ólíkt brynfiskum (ostracoderm) voru brodduggar rándýr sem lifðu á smærri sjávardýrum.


Líklegt er að kjálki fiska hafi orðið til við að fremsti hluti tálknfestinga þeirra breytti um hlutverk og varð að kjálka. Þessi þróun er talin hafa gerst á devon. Þó svo að brodduggum fækkaði í lok devon hélt þróun ránfiska áfram. Efst í fæðupíramídanum voru brynháfarnir [Placodermi] sem komu fram á devon og hurfu síðan við upphaf kolatímabilsins.


Brjóskfiskar t.d. hákarlar komu fram á devon og urðu tegundahópar þeirra fljótt áberandi. Sömuleiðis komu geislauggar fram í lok devon og urðu þeir ríkjandi meðal fiska á miðlífs- og nýlífsöld. Til þeirra teljast allir algengustu fiskar nú. Tilurð geislaugganna á devon skipti miklu máli í þróuninni og það sama má einnig segja um tegundir skyldar þeim eins og lungnafiskanna.


Devon var uppgangstími lungnafiska en af þeim lifa nú aðeins 3 tegundir, ein í Suður-Ameríku, ein í Afríku og ein í Ástralíu. Ástralska ættkvíslin Neoceratodus líkist svo mjög ættkvíslinni Ceratodus sem lifði á trías að fiskar af þessari tegund eru oft kallaðir lifandi steingervingar.


Holduggar draga nafn sitt af útlimum sem tengdust líkamanum með einum liðóttum legg í stað margra leggja sem mynda geislóttan kamb eins og hjá geisaluggum. Landhryggdýr eru talin hafa þróast af skúfuggum.


Flestir skúfuggar voru ferskvatnsfiskar en þó lifði sjaldgæf ættkvísl, Coelacanth, enn í höfunum. Árið 1938 kom í ljós að tegundin Latimcria chalumnae (bláfiskur) lifir enn, þegar fiskur af þessari tegund veiddist á djúpu vatni nálægt Comoro-eyjum í Indlandshafi.


Skúfuggum líkt og lungnafiskum fækkaði í lok devon en þeir skildu eftir sig djúp spor í þróunarsögunni því að öll landhryggdýr rekja ættir sínar til þeirra.


Hin mikla fjölbreytni kjálkafiska og útbreiðsla ammoníta og sæsporðdreka hlýtur að hafa haft afdrifarík áhrif fyrir mörg varnarlaus sjávardýr og hefur átt stóran þátt í stöðugri hnignun þríbrota um miðja fornlífsöldina. Um 80 ættir þríbrota eru þekktar frá ordóvísíum (miklu færri en frá kambríum) og í setlögum frá sílúr eru aðeins 23 ættir þekktar. Svo er að sjá sem ytri skel þeirra hafi veitt þeim litla vörn og auk þess var hreyfigeta þeirra takmörkuð. Kjálkalausu brynfiskarnir [ostracoderm] sem dóu út á síðdevon hljóta einnig að hafa verið auðveld bráð fyrir kjálkafiskana. Þeir gátu ekki einu sinni grafið sig í leðjuna líkt og margir þríbrotanna gátu.


Nokkrar myndir af sjávarlífi á devon: