Sjávarlíf á síðkambríum

Að loknu Tommotianstiginu tók tók við þróun margra sjávardýra með harða líkamsparta og bar þar mest á þríbrotum úr þeirri fylkingu sem liðfætlur [Arthropoda] nefnast og krabbadýr teljast til. Margar tegundir þeirra voru skammlífar, lifðu aðeins um 1 Má, og vegna þess hve auðvelt er að greina steingervinga þeirra til tegunda hafa þeir reynst mikilvægir einkennissteingervingar í jarðlögum frá kambríum.


För í seti sýna að þríbrotarnir skriðu á botninum og grófu sig jafnvel í setið en aðrir hafa líklega getað synt um fyrir ofan botninn.


Mun meira myndaðist af mottubergi á kambríum og ordóvísíum en síðar varð. Steingerðar armfætlur frá þessum tíma eru einnig algengar. Þær eru einlífisdýr sem lifa í sjó og sía vatnið. Armfætlurnar hafa mjúka líkamshluta líkt og hjá mosadýrum og samlokum og er dýrið umlukið tveimur ólíkum skeljum úr kalsíumkarbónati eða horni úr fosfatsamböndum. Ættingjar þessara lífvera lifa í höfunum nú og líkjast samlokum en eru þeim alls óskyldir. Talsvert finnst einnig af steingervingum lindýra eins og samloka, snigla og nátíla (smokkfiska). Fjöldi skrápdýra var einnig kominn fram á kambríum eins og sæliljur, steinepli (cystoid) og sæknappar.


Einnig finnast steingervingar tanndýra (Conodonta), sem líklega eru tennur úr fiskum, og ennfremur steingervingar skelkrabba (ostrocods). Nýlega hafa fundist steingerðar beinplötur í bergmyndunum frá kambríum sem taldar eru af smávöxnum fiskum. Fiskarnir, elstu hryggdýrin, eiga ættir sínar að rekja til þessa tímabils jarðsögunnar.



Tímasvið nokkurra valda fylkinga og flokka í jarðsögunni: ◊.