Lífríkið

Í raun breyttist lífríki sjávar síðari hluta fornlífsaldar ekki svo mjög frá því sem það hafði verið á síðdevon að frátöldum þeim tegundahópum lífvera sem horfið höfðu í útdauðanum í lok devontímabilsins. Breytingar á landi urðu hins vegar mun afdrifaríkari. Fjöldi skordýra tiltölulega lík núlifandi skordýrum þróuðust á þessum tíma og margar nýjar tegundir trjáa af ættbálki byrkninga lögðu stór fenjasvæði undir sig en leifar þeirra urðu síðan að kolum. Seinna hörfuðu þessi tré fyrir fræplöntum sem um síðir urðu ríkjandi. Á líkan hátt varð þróun dýranna. Froskdýrin sem aðeins geta tímgast nálægt vatni líkt og byrkningar ríktu í upphafi á landi en hörfuðu smám saman fyrir tegundahópum landskriðdýra. Í lok perm höfðu skriðdýrin þróað með sér fæðuöflun og hreyfigetu sem síðar átti eftir að einkenna spendýrin.


◊.