Ferskvatns- og landdýr

Í lífríki seinasta hluta fornlífsaldar juku geislauggar enn á fjölbreytni sína og ferskvatnshákarlar sem eiga enga skylda núlifandi ættingja voru algengir. Lindýr urðu þá fyrst áberandi í ferskvatni og skeljar margra samlokutegunda finnast í ferskvatnsseti.


Á landi skipaði tegundahópur hryggleysingja, skordýrin, mikilvægt hlutverk í lífríkinu - hlutverk sem þau hafa ekki látið af hendi enn. Elstu gerðir skordýra eru frá árdevon en þær voru án vængja. Þó svo að engir steingervingar skordýra séu þekktir frá árkolatímabilinu höfðu skordýr þróað vængi á síðkolatímabilinu og hafa margir steingervingar verið flokkaðir fyrst og fremst eftir varðveittum vængförunum. Elstu fleygu skordýrin voru að því leyti frábrugðin flestum núlifandi tegundum að þau gátu ekki brotið vængina saman og lagt þá aftur með búknum. Einu fleygu núlifandi skordýrin sem teljast til sömu ættbálka eru drekafluga ◊. og maífluga (dægurfluga) en þær áttu sér fulltrúa á síðkolatímabilinu ásamt mörgum fleiri ættbálkum. Í jarðlögum kolatímabilsins í Frakklandi finnast risastórar drekaflugur með vænghaf sem nálgaðist hálfan metra. Þetta hefur ranglega verið túlkað á þann veg að margar tegundir risaflugna hefðu verið algengar á kolatímabilinu en í raun er aðeins ein tegund þekkt. Hinar voru af svipaðri stærð og nú þekkjast.


Skordýr með vængi sem brjóta mátti saman virðast koma fram í lok síðkolatímabilsins. Það bendir til þess að þau hafi gengið í gegnum hraða og fjölbreytilega þróun. Þau juku enn á fjölbreytni sína í byrjun permtímabilsins.


Á árkolatímabilinu voru frumstæð froskdýr einu land-hryggdýrin. ◊. Þau urðu þó að klekja eggjum sínum í vatni og dvelja þar hluta ævi sinnar. Samt sem áður líktust þau núlifandi froskdýrum ekki mikið. ◊. Froskar, körtur og salamöndrur sem flest núlifandi froskdýr teljast til eru lítil dýr og virðast vera þau einu af þessum flokki dýra er geta lifað í samkeppni við stór spendýr og skriðdýr. Stóru froskdýrin á kola- og permtímabilinu voru hins vegar ein um hituna og þess vegna þróuðust tegundir þeirra af margvíslegri gerð og stærð. Sum líktust krókódílum en önnur voru lítil, á stærð við snáka, og enn önnur voru jurtaætur. Sum froskdýranna náðu 6 metra lengd frá snoppu og aftur á hala. Þau sem lifðu þurrlendislífi seinni hluta ævinnar voru þakin hreistri.


Elstu þekktu skriðdýrin finnast í setlögum frá miðju kolatímabilinu. Beinagrindur froskdýra og fyrstu skriðdýra eru aðeins að litlu leyti ólíkar og felst munurinn einkum í efri góm, aftari hluta hauskúpu, innra eyra og hryggjarliðum.


Aðferð froskdýra við tímgun er einnig frábrugðin aðferð skriðdýra. Lykilatriðið í þróun skriðdýra er líknarbelgseggið sem einnig er að finna hjá núlifandi skriðdýrum og fuglum. Í þessu eggi er fóstrinu séð fyrir næringu og þar er einnig að finna tvo sekki. Í öðrum sekknum, líknarbelgnum, er fóstrið en hinn belgurinn tekur við úrgangi frá fóstrinu. Traust ytri skel ver fóstrið á meðan það þroskast. ◊. Líknarbelgseggið er mikilvægt vegna þess að það gerði hryggdýrum í fyrsta sinn mögulegt að lifa og tímgast á þurrlendi fjarri vatni. Elstu steingervingar sem ætla má að séu af eggjum skriðdýra eru frá árperm en fastlega er gert ráð fyrir að þau eigi uppruna sinn að rekja til kolatímabilsins þegar skriðdýrin komu fram.


Þróun líknarbelgseggsins hjá skriðdýrum er á margan hátt hliðstæð þróun frævunnar hjá plöntum. Líkt og froskdýrin eru byrkningar háðir vatni hluta ævinnar og þróun fullkomnari tegundahópa hjá fræplöntum og skriðdýrum sýnir aðlögun að lífi á þurrlendi.


Seinna þróaðist kjálkinn hjá skriðdýrum og varð fullkomnari á þann hátt að bit dýranna varð kröftugra og tennur til að skera fæðuna niður og tyggja þróuðust hjá þeim.


Þrátt fyrir tilkomu skriðdýra á síðkolatímabilinu héldu froskdýrin áfram að dafna fram á perm en þá fara þau fyrrnefndu smám saman að leysa froskdýrin af hólmi, einkum vegna þróaðri tanna, kjálka og hreyfigetu en hjá froskýrum.