Harzhreyfingin og loftslagsbreytingar

Rek Gondvanalands til norðvesturs endaði með árekstri við ORS-meginlandið um mitt kolatímabilið en við það risu fjöll í Harzfellingahreyfingunni (Varístísku-fellingunni öðru nafni). Fjöllin sem mynduðust kallast Harzfjöll í Evrópu, Máritaníu-fjöll í Norðvestur-Afríku og Alleghanianfjöll í Norður Ameríku.


Eftir því sem á leið kolatímabilið jókst munur á hitafari pólarsvæðanna og hitabeltisins. Á suðurhveli teygðu jöklar sig norður undir 30. breiddargráðu þar sem heittemprað loftslag hafði ríkt mestalla fornlífsöldina og á norðurhveli náðu kolaskógarnir langt til norðurs inn á kaldtempruð svæði. Kolalög mynduðust ekki einungis í hitabelti og heittempruðu loftslagi heldur einnig í köldu loftslagi Gondvanalands. Þar óx Glossopteris-flóran sem var aðlöguð kaldtempruðu loftslagi suðurhvelsins og var hún frábrugðin svonefndri Evró-flóru hitabeltisins en hún myndaði kolalög Norður-Ameríku og Evrópu. Lepidodendron og Sigillaria fundust einnig á Gondvanalandi en margar plöntur í flórunni þar finnast ekki á norðurhveli. Á Síberíu-meginlandinu sem lá nálægt norðurpólnum var ennfremur sérstök flóra aðlöguð köldu loftslagi. Greinileg ummerki á steingerðri flóru Gondvanalands sýna ljóslega að hún óx við kaldtempruð skilyrði þar sem árstíðasveiflur eru miklar. Sést þetta á greinilegum árhringjum í trjábolum sem sjást ekki í hitabeltistrjám. Helstu breytingarnar sem urðu á flórunni frá síðkolatímabilinu og yfir á perm eru þær að byrkningum hnignaði en berfrævingar sóttu á enda þola þeir þurrt loftslag mun betur.