Skipting fornlífsaldar í tímabil: ◊.


Vegna mikillar útbreiðslu bergmyndana frá kambríum er auðveldara að draga upp mynd af heiminum á þessum tíma en á upphafs og frumlífsöld. Eins og áður hefur komið fram er margt sem bendir til þess að meginlandskjarnarnir hafi myndað eitt stórt meginland í lok frumlífsaldar. Skipan meginlanda á kambríum var mjög frábrugðin því sem hún hafði verið á forkambríum. Á síðkambríum lágu Gondvanaland á suðurhveli og etv. hefur syðsti hluti þess teygt sig suður á heimskautið en engin meginlönd voru nálægt norðurskautinu. Hlýr sjór lék því um strendur flestra meginlanda og skýrir það hvers vegna kalkstein frá kambríum er að finna á svo mörgum meginlandskjörnum og að set frá þessum tíma hefur myndast í hitabelti eða á heittempruðum svæðum.


Áflæði hófst í byrjun kambríumtímabilsins en það segir okkur að flestir meginlandsskildir hafi staðið vel upp úr sjó í lok forkambríum. Þess vegna er lítið sjávarset að finna á meginlandskjörnunum frá mótum forkambríum og kambríum. Landris af völdum fellingahreyfinga fyrir um 800 til 400 Má olli því að mörg svæði Gondvanalands héldust uppúr sjó þrátt fyrir áflæði fram eftir kambríum. Önnur svæði sýna hins vegar afflæði. Merki um áflæði og afflæði má sjá af gerð setsins og ennfremur af tegundum þríbrota sem ýmist voru blindar tegundir er lifðu í djúpu vatni eða tegundir sem lifðu á grunnsævi.


Sjávarborð virðist yfirleitt hafa staðið hátt út ordóvísíumtímabilið og er svo að sjá sem sjávarstöðubreytingar hafi ekki haft afgerandi áhrif á lífríkið. Hins vegar virðist mikill útdauði hafa orðið í lok ordóvísíum.


Um mitt ordóvísíum lá Baltíka sunnan miðbaugs og á seinni helmingi ordóvísíum rak Baltiku ásamt eynni Avloníu til norðurs í átt að Lárentíu. Eyjan kýttist við austurströnd Lárentíu þar sem syðri hluti hennar er enn en nyrðri hlutinn ásamt smáum brotum úr Lárentíu myndaði seinna Stóra-Bretland og Írland. Eftir því sem löndin nálguðust líktist þríbrota-, armfætlu- og graptólítafána þessara landsvæða æ meir. Rannsóknir á þríbrotafánunni skýra einmitt þetta rek.


Þegar norðurhluti Avalóníu (England) nálgaðist Lárentíu varð til grunnsjávarset við norðurströnd þess. Dýpra í álnum hlóðust upp setlög úr grávakka, gosbergsmolabergi og svörtum leir. Graptólíta sem steingerðust í þessum leirlögum svipar til þeirra steingervinga graptólíta sem fundist hafa í setlögum sem mynduðust við austanverða Norður-Ameríku á þessum tíma. ◊.


Japetushaf mjókkaði mjög er Baltiku rak til norðurs í átt til austurstrandar Lárentíu. Sökkbelti (niðurstreymisbelti) meðfram Japetushafi komu af stað eldvirkni við sunnanvert Skotland.


Það varð hins vegar, eins og áður er komið fram, ekki fyrr en á sílúr-devon að Japetushaf lokaðist og Baltika sameinaðist Lárentíu, England sameinaðist Skotlandi og Norður-Írland sameinaðist Suður-Írlandi. Sjá má af kalksteins-setmyndunum í suðaustanverðri Svíþjóð og Eystrasalti að það landsvæði færðist á þessum tíma til hitabeltisins.


Gondvanaland lá þvert á miðbaug seint á kambríum en á ordóvísíum voru aðeins nyrstu hlutar þess á miðbaug og syðri hluti þess lá yfir suðurheimskautinu. Á meðan Baltiku rak í átt til miðbaugs færðist Gondvanaland í átt til suðurskautsins og eftir því sem hlýnaði á Baltiku kólnaði á Gondvanalandi.


Saga lífríkis á fornlífsöld er saga lífs í höfunum því á landi lifðu varla aðrar lífverur en þær frumstæðustu. Frumstæðar frumverur og sveppir höfðu líklega breiðst út til ferskvatna en þær lífverur hafa ekki skilið eftir sig steingervinga frá þessum tíma.


Þótt flestar lífverur þessa tíma væru aðeins með mjúka líkamshluta líkt og marglittur og ormar fundust einnig aðrar lífverur sem höfðu þróað með sér líkamshluta úr hörðu efni. Segja má að snemma á kambríum hafi sjávarfánan verið orðin fjölskrúðug og þar á meðal voru skeldýr og svampar.


Í neðsta hluta setlagaannálsins frá kambríum er fáa steingervinga af hörðum líkamshlutum dýra að finna. Flestir þeirra eru rör- eða vasalaga en þó er að finna steingerðar tennur. Í raun er fjölbreytnin lítið meiri en var seinast á frumlífsöld.