Breytileg stærð meginlanda

Þó jarðfræðingar hafi lengi leitast við útskýra hvernig þau meginlönd sem við þekkjum nú urðu til hefur þeim ekki tekist að rekja söguna lengur aftur en til síð-frumlífsaldar. Óljóst er hvernig eldri meginlandskjarnar urðu til og afstæð lega smárra meginlanda frá upphafsöld skýrist etv. aldrei. Berg sem eldra er en 500 Má er ýmist rofið brott, mjög myndbreytt eða grafið undir þykkum setlögum. Segulmælingar og túlkun þeirra á svo gömlu bergi er oft vandkvæðum bundin og afar erfitt að túlka niðurstöðurnar. Engu að síður hafa jarðfræðingar dregið upp mynd af stærstu meginlöndum frumlífsaldar og þannig gert sér grein fyrir sögu þeirra frá upphafi kambríum til okkar daga. Það er t.d. nokkuð ljóst hvernig meginland Norður-Ameríku óx og hvernig það varð hluti af risameginlandi sem svo aftur brotnaðu upp seint á frumlífsöld.


Eins og kom fram í kaflanum um landrek vaxa meginlandskjarnar einkum á tvennan hátt: tveir eða fleiri kjarna rekur saman og þeir sameinast eða meginlandsskorpa myndast í fellingahreyfingum við jaðra þeirra. Oft er seinni mátinn útskýrður með jafnvægisleitni. Set ættað frá meginlandinu hleðst þá upp auk jarðlaga úr kalki frá kóralrifjum og gosbergi frá hlutbráðnun í sökkbeltinu. Þessi jarðlög geta orðið mörg þúsund metra þykk og fergja þau hafsbotninn við ströndina og flýta þannig fyrir niðurstreyminu við djúpálinn. Meginlandskjarnarnir minnka svo aftur við rof en þó einkum þegar þeir brotna upp við landrek.


Sjá eldri kenningar um jarðtrog.