Myndun stórra fjallgarða

Myndun stóra fellingafjalla var mönnum lengi vel hulin ráðgáta og skoðanir jarðfræðinga skiptar í því efni. Vestan hafs veittu menn því athygli að Strandfjöllin lágu samsíða vesturströndinni og Appalachiafjöllin samsíða austurströndinni. Um og fyrir 1960 álitu bandarískir jarðfræðingar því að fellingahreyfingar yrðu einkum meðfram meginlandskjörnum. Í Evrópu voru flestir jarðfræðingar lengi vel á annarri skoðun. Þeir veittu því athygli að Úralfjöllin stóðu á Evrasíu-meginlandinu, einu stærsta meginlandi jarðar. Þeir ályktuðu því að fellingahreyfingar gætu orðið á miðju meginlandi. Flekakenningin skýrir í raun hvort tveggja. Raunin er sú að langir fellingafjallgarðar rísa oftast meðfram ströndum meginlanda á flekamótum þar sem sökkbeltin eru. Meginlönd geta hins vegar rekist á hvort annað og rísa þá fellingafjallgarðar á samskeytunum inni á hinu nýja meginlandi. Þetta gerist á flekamótunum þar sem sökkbeltin (niðurstreymisbeltin) eru.


Ekki má þó gleyma því að stórir fjallgarðar rísa á flekaskilum þar sem úthafshryggirnir eru eins og Atlantshafshryggurinn þó það gerist með allt öðrum hætti.


Myndun fellingafjallgarða kallast fellingahreyfingar [orogenesis]. Þetta er flókið ferli atburða og enn er margt á huldu um flesta þætti þessarar þróunar. Það sem einkum eykur á margbreytileik þessara myndana er að fellingahreyfingarnar gerast ýmist þar sem úthafsfleki skríður undir meginlandsfleka eða á samskeytum meginlanda sem hafa rekist á.


Þegar tvö meginlönd nálgast brotnar úthafsflekinn og skarast. Yngri hluti flekans skríður undin þann sem eldri er og á mörkunum myndast eyjabogi. Set skrapast af hafsbotninum og hrúgast þar sem úthafsflekinn skríður niður og sekkur. Þetta set er síðan talið verða að ormgrýti [ophiolite].


Þegar úthafsflekinn skríður undir eldri flekann og sekkur verður hlutbráðnun og súr kvika stígur upp og myndar mikla berghleifa úr súru bergi. Þeir eru tiltölulega eðlisléttir og auka á flot fellingafjallanna. Eyjaboginn og síðar fellingafjallgarðurinn myndar dæmigerðan kjarna. Báðum megin er belti með myndbreyttu bergi. Þessi belti eru úr bergi sem myndbreyst hefur vegna hita við snertingu við heit innskot frá kjarna fjallgarðsins.


Myndbreytingin deyr út til beggja átta frá fjallshryggnum. Landmegin myndar myndbreytta bergið belti fellinga og þrýstimisgengja og bera þau með sér að þeim var þrýst frá hryggnum. Setlög landmegin og fjær hryggnum eru síður myndbreytt og ekki eins samkýtt og felld eins og berglögin í myndbreyttu beltunum. Þau eru líka stekkri og brotna upp í misgengisblokkir með feikilegum þrýstigengjum þegar þær ýtast upp á skorpu meginlandsins.


Þegar eyjabogi nálgast meginlandið svignar skorpan landmegin niður og strandhaf myndast. Strandhafið dýpkar fljótt og fyrsta setið er yfirleitt svokölluð flyksa [flysch] þar sem leirskífa og illa aðgreindur sandsteinn (grávakki) skiptast á. ◊. Svartur leirinn vitnar um hæga setmyndun leirs og eðju á milli þess sem eðjustraumar falla niður í hafdýpið. Eftir því sem fellingahreyfingin heldur áfram og færist innar vöðlast þessar myndanir saman. Á meðan lyftist fjallgarðurinn og strandhafið grynnist og hverfur loks alveg. Setið sem berst þá niður í lægðina fyllir hana loks þannig að hún þornar upp og öll setmyndun verður landræn. Set sem þannig myndast á grunnsævi, í aurkeilum eða á áreyrum er kallað molasse. Bæði flyksa og molasse eru nöfn á bergi fengin frá nöfnum í jarðlagasniðum í Ölpunum. Flyksa (flysch) sem er aðallega svartur leirsteinn (shale), eins og áður er komið fram, finnst í Helvítísku Ölpunum en molasse, sem þar finnst einnig, er úr blöndu völubergs og sandsteins sem myndast hefur í vatni.


Þegar meginlandsflekarnir mætast kýtist eyjaboginn upp að meginlandinu. Meginlandsflekinn sem ýtti úthafsflekanum á undan sér fylgir úthafsflekanum og sekkur að hluta undir hinn meginlandsflekann.


Af framansögðu er ljóst að meginlandskjarnar geta ýmist vaxið við að fellingahreyfingar bæta meginlandsskorpu við jaðar kjarnans eða þá að tveir eða fleiri kjarnar kýtast saman.