Hvernig kviknaði lífið á jörðinni?

Varð lífið á jörðinni til fyrir einstaka tilviljun eða af efnafræðilegri nauðsyn? Þessari spurningu er vandsvarað. Ef við skoðum lífið í dag þá einkennist það af þremur gerðum stórsameinda þ.e. kjarnasýranna DNA, RNA og prótíni. Lífið spratt þó ekki upp fullskapað, en þegar þróun lífsins hófst hefur verið að baki löng þóun efnisins. Talið er að í byrjun hafi ákveðin hráefni sem eru nauðsynleg lifandi lífverum, svo sem amínósýrur, fosfat o.s.fr. komið saman. Hugsanlegt er að þessi efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum, en stjarnfræðingar hafa greint þessi hráefni í geimryki, loftsteinum og halastjörnum. Hráefnin söfnuðust saman svo sameindir þeirra rákust á og með tímanum hafi orðið til sífellt flóknari efni. Jafnframt er talið að sumar sameindirnar hafi dregið til sín hráefni úr umhverfinu og myndað eftirmynd sína. Stóra spurningin er í hvaða röð birtust þessi efni? Það er skoðun margra að áður en til varð líf eins og við þekkjum það hafi þróast frumstæðar lífverur þar sem kjarnsýran RNA gegndi alfarið hlutverki kjarnasýra (bæði DNA og RNA) og prótína. Þessar lífverur hafa verið óstöðugar og smám saman þróast í þeim ensímakerfi úr prótínum og varanlegra erfðarefni úr kjarnsýrunni DNA. En þessu til stuðning má benda á að kjarnsýran RNA getur bæði flutt erfðaupplýsingar og framkvæmt vinnu í frumunum, sem og hraðað efnahvörfum, þ.e. gengið í hlutverk ensíma. Ennfremur hefur verið bent á að í sumum veirum gegnir kjarnsýra RNA hlutverki erfðaefnis í stað kjarnsýrunnar DNA. Um síðir hefur svo DNA sem er stöðugri sameind þróast í að taka við hlutverki RNA sem erfðalykill.