Rek meginlandanna

Árið 1915 setti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (f. 1880 – d. 1930) fram þá kenningu að meginlöndin hefðu í eina tíð legið saman og myndað mikið meginland sem hann kallaði Pangea (orðið merkir öll lönd sameinuð). Vísindamenn höfnuðu kenningu Wegeners strax í upphafi og hún féll í gleymsku. Uppgötvanir síðustu áratuga hafa hins vegar leitt í ljós að kenningar hans voru í meginatriðum réttar og að öll helstu meginlöndin sem þekkt eru nú mynduðu saman eitt risastórt meginland í upphafi júratímabilsins fyrir um 200 Má.


Nú er mönnum ljóst að jarðskorpan skiptist í 7 stóra fleka auk margra smærri. Ný jarðskorpa verður til á flekaskilum úthafshryggjanna þar sem möttulefni stígur upp. Flekarnir vaxa því á flekaskilunum en þeir ganga saman og eyðast á flekamótunum þar sem þung úthafsskorpan smýgur undir léttari fleka. Á flekamótum verða gjarna til svonefndir djúpálar með mikilli setmyndun auk þess sem léttustu efnin bráðna úr úthafsflekanum, stíga upp og taka þátt í myndun eyjaboga og síðar fellingafjallgarða. Fyrir kemur að tveir meginlandsflekar rekast saman og myndi háa fellingafjallgarða eins og Himalajafjöll þar sem Ástralíu-Indlandsflekinn og Asíuflekinn ýtast á.


Meðal þeirra atriða sem styðja þá kenningu að meginlöndin hafi legið saman eru einkum fjögur atriði. Í fyrsta lagi fornir steingervingar líkra landdýra frá trías sem finnast aðeins í berglögum í Suður-Ameríku og Suður-Afríku. Í öðru lagi benda jafngamlir steingervingar líkra trjáa í jarðlögum í Suður-Ameríku, á Indlandsskaga og í Ástralíu til hins sama. Í þriðja lagi finnast bergmyndanir beggja vegna N-Atlantshafsins sem virðast vera leifar af stórum samfelldum fjallgarði og í fjórða lagi hafa 300 Má gamlar jökulminjar sama jökuls fundist í Suður-Ameríku, Afríku, á Indlandsskaga og í Suður-Ástralíu. Þetta hefur líklega verið gríðarstór jökulskjöldur álíka og nú er á Suðurheimskautslandinu og sýna vel varðveittar jökulrákir skriðstefnu hans. Skriðstefnan í hinum mismunandi meginlöndum stenst hins vegar ekki nema meginlöndin séu færð saman.


Upp úr 1950 hófust rannsóknir á fornsegulmögnun í bergi en segulmögnun storkubergs sýnir afstöðu segulpólanna og myndunarstaðarins á hverjum tíma. Þegar rannsóknirnar voru kortlagðar kom í ljós að segulpólarnir virtust hafa verið á stöðugu reki allt frá miðbaug til núverandi staðar síðustu 600 Má. Vitað er að segulpólarnir eru á hreyfingu í nánd við jarðpólana en frávikið er ekki stórt. Ennfremur sást að niðurstöðum frá Norður-Ameríku og Evrópu bar ekki saman nema meginlöndin væru færð í það horf sem talið er að þau hafi verið í fyrir um 65 Má. Því má ætla að segulpólarnir hafi ekki færst til svo neinu nemi heldur hafi meginlöndin með segulmagnaða berginu rekið um jarðkúluna.


Út frá ýmsum gögnum hafa jarðvísindamenn reynt að gera sér grein fyrir legu meginlandanna allt frá því fyrir 600 Má. Talið er að Pangea hafi byrjað að liðast í sundur fyrir um 200 Má. Við það mynduðust tvö stór meginlönd Laurasía og Gondvanaland sem svonefnt Tethyshaf skildi að. Gondvanaland tók síðan að liðast í sundur þannig að Afríka og Indlandsskagi (Dekan) slitu sig laus.


Suður-Ameríka, Suðurheimskautslandið og Ástralía héngu lengur saman sem m.a. má sjá af steingervingum pokadýra en þau virðast hafa átt greiða leið á landi frá Suður-Ameríku um Suðurheimskautslandið til Ástralíu þar til fyrir 38 Má er þessi meginlönd skildust að.


Einn mikilvægasti þátturinn í aðskilnaði Suður-Ameríku, Suðurheimskautslandsins og Ástralíu var myndun opins hafs, Suður-Íshafsins, umhverfis Suðurheimskautslandið. Þar ríkja stöðugir vestanvindar og kaldir hafstraumar streyma umhverfis meginlandið enda beina engin meginlönd vindunum norður til hlýrri hafsvæða þar sem þeir gætu sótt upphitun. Talið er að þessi skipan landanna hafi einkum stuðlað að myndun íshellunnar miklu á Suðurheimskautinu strax fyrir um 10 Má.


Ekki er ólíklegt að þeir kraftar sem knýja flekana og hér hefur verið lýst hafi ávallt verið til staðar og á líkan hátt megin túlka rek meginlandanna um hnöttinn allt fá myndun jarðskorpunnar.



Sjá síðu um landrek og jarðskjálftasvæði Jarðar



INDEXL → landrek.