Rif úr lífrænu seti

Í hitabeltinu þar sem sjávarhiti er yfir 21°C og birta er nægileg mynda kórallar rif á grunnsævi meðfram ströndum eða umhverfis eyjar. Kóralrifunum er gjarnan skipt í þrjá flokka eftir legu þeirra. Þau mynda í fyrsta lagi jaðarrif, landfastan kraga meðfram ströndum sem lítið eða ekkert hafa sigið á myndunartímanum, í öðru lagi lónarif úti fyrir ströndinni þar sem fastalandið hefur sigið lítið eitt og í þriðja lagi mynda þau hringlaga rif eða atoll þar sem fastalandið eða eyjan er sokkin í sæ. Nú eru það einkum kórallar sem hlaða upp rifjum á hafsbotni en áður en þeir komu til sögunnar voru það ýmsar aðrar lífverur sem voru að verki t.d. bikardýr.


Nútíma rif eru mynduð úr mjög svo misleitum kalksteini en megininnviðirnir eru úr stoðgrindum lífvera einkum kóralla. Kalkleifar frá ýmsum öðrum lífverum, þar á meðal kalkþörungum, líma innviðina saman og þétta. Kalkmylsna úr skeljum dýra sem lifa á rifinu sest til í holrými á milli kórallanna. Í heild er þessi uppbygging svo flókin að kalksteinn úr kóralrifjum er yfirleitt ólagskiptur eða mjög ógreinilega skiptur. Jafnvel þó að set hafi fyllt upp í stærstu holrými er kalksteinn myndaður í rifjum afar gropinn og þess vegna eru olíugildrur víða þar sem kalkstein úr rifjum er að finna.


Kóralrif rísa upp frá nærliggjandi hafsbotni og breyta því setmynduninni í næsta nágrenni. Hlémegin við rifið er vanalega lón með lygnu vatni. Þetta á einkum við þar sem rifin ná yfirborði sjávar á fjöru. Á botninum þrífast lífverurnar en neðar er kjarni rifsins úr dauðum stoðgrindum og skeljum auk kalks og annars sets sem límir þær saman og þéttir. Sjávarmegin við rifið er skriða eða marbakki úr ruðningi sem brimið hefur brotið úr rifinu. Flest rif geta vaxið hratt og haldið í við sjávarstöðubreytingar og landsig á sjávarbotni.


Þegar brimaldan kennir grunns við rifin hægir hún á sér og brotnar. Rofkraftur hennar er því ekki sá sami úti við marbakkann og uppi í flæðarmálinu. Af þessu leiðir að umhverfi lífveranna verður breytilegt og samfélögin sömuleiðis.


Rif með lóni fyrir innan eru kölluð strandrif en jaðarrif séu þau uppi við strönd fasta landsins. Þau nútímarif sem mesta athygli vekja eru þó hringrifin. Þau myndast umhverfis eldfjallaeyjar og eru því algeng í Kyrrahafi. Charles Darwin setti fram kenningu um myndun slíkra rifja og er hún enn í fullu gildi. Rifmyndunin byrjar sem jaðarrif eftir að eldfjallaeyjan hefur myndast. Eyjan sekkur síðan, t.d. ef hana rekur út af rekhrygg, en kórallarnir vaxa áfram við yfirborð sjávar og mynda hringlaga rif með lóni í miðju.


Sjá kóralrif.