Umhverfisaðstæður við myndun jarðvegs

Jarðvegur kallast sá hluti lausra jarðlaga sem jurtir geta vaxið í. Jarðvegur er mjög mismunandi eftir því við hvers konar umhverfisaðstæður hann myndast og má í því sambandi nefna hitabeltisjarðveg, jarðveg á þurrkasvæðum og hálendisjarðveg.


Jarðvegur hefur í flestum tilfellum orðið til við veðrun andrúmsloftsins og starf jurta og annarra lífvera. Í flestum tilfellum er honum skipt í þrjú lög.


Efst er A-lagið. Það er einkum úr sandi og leir. Efst í því er gróðurmoldin rík af húmus sem er úr blöndu rotnandi leifa plantna, dýra og örvera. Þar sem mikið er um lífrænar leifar og útskolun lítil verður gróðurmoldin dökk en t.d. nálægt eyðimörkum þar sem gróður á í vök að verjast er húmuslagið fátæklegt af lífrænu efni. Í B-laginu, miðlaginu, eru útskoluð efni úr A-laginu. Þetta lag vantar yfirleitt þar sem jarðvegur er ungur. C-lagið er neðst og er það í raun efsti hluti berggrunnsins sem aðeins er byrjaður að ummyndast.


Jarðvegsmyndun er mjög háð því loftslagi sem ríkjandi er á hverjum stað. Í tempruðu loftslagi Mið-Evrópu myndast t.d. torleyst járnoxíð og áloxíð í B-laginu en aftur á móti ýmsar kalsítörður í heitu loftslagi þar sem jarðvegurinn er þurr hluta ársins.


Í röku hitabeltisloftslagi er A-lagið oft nær horfið vegna hitans og úrkomu sem einkenna slíkt umhverfi. Vatn seytlar stöðugt niður í gegnum jarðveginn og eyðileggur húmuslagið með oxun. Kísilríkar steindir brotna einnig hratt niður og hverfa svo að eftir verður jarðvegur ríkur af ál- og járnoxíðum sem gefa honum rauða litinn.

Forn jarðvegur

Erfitt getur reynst að greina og þekkja fornan jarðveg. Ástæðan er einkum sú að nýmyndun steinda breytir efnasamsetningu hans þannig að hann verður óþekkjanlegur. Fornan jarðveg er helst að finna neðan mislægis sem hefur myndast við rof bergs á þurru landi og áður en nýtt setlag lagðist yfir þær myndanir sem fyrir voru. Það er þó algengara að engar jarðvegsleifar sé að finna undir mislægi eða að þær séu mjög umbreyttar og óþekkjanlegar.


Samt sem áður eru nokkur sérkenni jarðvegs sem nýta má til að greina fornan jarðveg. Í jarðvegi sem t.d. hefur myndast á berggrunni eru yfirleitt brot úr berginu í C-laginu. Einnig má oft sjá áður nefndar kalsítörður sem gefa til kynna að loftslag hafi verið heitt og þurrt með úrkomu á bilinu 100 til 500 mm á ári. Oft eru rótarför í kalsítörðunum sem sýna tilvist plantna í jarðveginum. Einnig er víða að finna steingerð tré, einkum í vikri frá eldgosum. Þá má einnig sjá t.d. í Bandaríkjunum gormlaga fyrirbrigði í jarðvegi sem eiga sér alþýðlega heitið „tappatogarar skrattans“. Þetta eru í raun steingerð göng útdauðra bifurdýra sem lifðu á ólígósen og míósen. Þau er stundum að finna á 10 m dýpi í jarðveginum og af því má draga þá ályktun að grunnvatn hafi a.m.k. staðið lægra en þegar göngin voru gerð.


Jarðvegsmyndun hefur verið breytileg á hinum ýmsu tímum. Þannig var hún sjálfsagt lítil á forkambríum áður en óbundið súrefni varð til í andrúmsloftinu og mikil breyting hefur einnig orðið með tilkomu stórra trjáa á devon.