James Hutton (1726-1797) sem áður hefur verið nefndur starfaði sem eðlisfræðingur og jarðfræðingur í Edinborg. Hans verður ekki einungis minnst sem eins skeleggasta andstæðings neptúnista heldur öllu heldur fyrir skilning sinn á því hvernig ytri og innri öfl breyta stöðugt ásýnd jarðar. Fyrir honum var jörðin staður umbreytinga þar sem nýtt berg var stöðugt að myndast, land og fjöll risu til mótvægis við rof og veðrun á öðrum stöðum. Með kenningum sínum um síbreytilegt yfirborð jarðar var Hutton því í grundvallaratriðum ósammála Werner sem áleit yfirborð jarðar stöðugt og óumbreytanlegt og hafa lítið sem ekkert breyst frá upphafi til vorra tíma. James Hutton áleit að jarðsöguna mætti skýra út frá því sem væri að gerast nú í náttúrunni. Þessi einfalda en nytsama hugmynd var síðar kölluð sístöðukenningin [uniformitarianism]. Charles Lyell átti síðar eftir að halda þessari kenningu mjög á lofti.


Sístöðukenningin gerir ráð fyrir því að eðlisfræðileg og efnafræðileg lögmál náttúrunnar hafi ekki breyst heldur ávallt verið þau sömu og við þekkjum nú. Veðrun, rof fljóta og jökla og rennsli grunnvatns hagar sér því á líkan hátt og það hefur ávallt gert. Túlkun James Huttons á því sem síðar var nefnt sístöðukenning var í sjálfu sér einföld og rökrétt. Með því að skoða jarðfræðileg fyrirbæri í umhverfinu gat hann útskýrt ýmis sérkenni sem hann tók eftir í bergi. Þegar hann sá álíka gárur og sjást í flæðarmálinu á sendinni strönd gat hann ályktað að berg sem var með þannig gárur hefði myndast úr fornum fjörusandi.


Sú aðferð Huttons að útskýra útlit og gerð bergs með því að athuga gang náttúrunnar nú hefur í daglegu tali verið útskýrð þannig að „nútíminn sé lykillinn að fortíðinni“ enda hafi sömu öfl ávallt verið að verki á jörðinni og skilið eftir sig svipuð verksummerki og þau gera enn. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær en hafa verður í huga að ýmsir þættir í umhverfi okkar hafa breyst frá fyrri öldum jarðsögunnar. Þannig er veðrun t.d háð efnasamsetningu andrúmsloftsins og hlýtur hún því að hafa verði nokkuð frábrugðin því sem nú er á meðan súrefnisinnihald gufuhvolfsins var aðeins örlítið brot af því sem það er nú.


Hugtakið um sístöðuna var ekki eini skerfur James Hutton til jarðfræðinnar. Í bók sinni Theory of the Earth (1785) dró hann saman margar þær kenningar sem fyrirrennarar hans í náttúruvísindum höfðu sett fram. Hann sýndi fram á að í bergið voru skráðir atburðir sem átt höfðu að gerast á fyrna löngum tíma og að yfir jörðina hefðu gengið mörg skeið umbrota aðskilin af skeiðum rofs og setmyndunar. Hutton virðist hafa gert sér fulla grein fyrir hringrás bergsins frá því rofið brýtur það niður og færir mylsnuna til hafs þar sem hún sest til. Setið límdist smátt og smátt saman og myndaði setberg sem síðan var lyft af ógnarkröftum þannig að nýtt land varð til og rof gat hafist á ný.


Á nesinu Siccar í Berwickskíri uþb. 60 km austan Edinborgar í Skotlandi tók Hutton eftir opnum þar sem gömul lög með miklum halla og fellingum höfðu rofnað niður og síðan höfðu yngri setlög lagst yfir. Hutton var ljóst að eldri myndunin hafði ekki einungis haggast heldur hafði stór hluti hennar horfið við rof. Rofflöturinn þýddi að það var eyða í annál setbergsins. Þó svo að það hafi verið Robert Jameson sem fyrstur kallaði þetta fyrirbrigði mislægi ári 1805 var James Hutton fyrstur til að skilja og útskýra mikilvægi þessa fyrirbrigðis í túlkun jarðsögunnar. Ljósmyndir af þessu fræga mislægi teknar við Siccar Point í Benwickshire prýða ófáar jarðfræðibækur.


Flest ritverka Huttons vöktu fremur litla athygli og þá einkum hjá andstæðingum hans, þeim sem aðhylltust kenningar neptúnistans Abrahams Gottlob Werners. Til að ráða bót á þessu fengu breskir vísindamenn sem gerðu sér ljósa mikilvægi kenninga Huttons vin hans John Playfair til að gera útdrátt og skýringar við ritverk Huttons, Theory of the Earth. Verk Playfairs var gefið út 1802 undir titlinum Illustrations of the Huttonian Theory of the Earth. Andstætt stíl Huttons sem var flókinn og torskilinn var stíll Playfairs án langra tilvitnana í erlend fræðirit en þess í stað léttur, auðskilinn og sannfærandi. Þeir nítjándu aldar fræðimenn sem mótuðu skoðanir sínar og skilning á hugmyndum Huttons öðluðust þannig skilning ekki við lestur frumtexta Huttons heldur af snjallri og sannfærandi framsetningu John Playfairs.


Hutton lést áður en ritverk Playfars Illustrations kom út. Hann hafði helgað líf sitt athugunum á jarðlögum og oft sást hann í mörkinni rýnandi í sérhverja bergopnu sem hann rakst á og brátt þekkti hann viss setlög svo vel að hann gat greint þau auðveldlega við aðrar aðstæður. Það sem hann kom hins vegar ekki auga á var að ólík setlög gátu verið lík að aldri. Honum tókst ekki að uppgötva hvernig rekja ætti saman setlög sem voru ólík að steindasamsetningu og gerð. Það var þó gert stuttu seinna af William Smith.